Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óþarfi að óttast að hús hrynji í jarðskjálftum

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Fólk á að vera öruggt í húsum sínum hér á landi þótt snarpir jarðskjálftar verði, enda strangar reglugerðir í gildi um húsbyggingar. Þetta segir byggingarverkfræðingur á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Þeir sem staddir voru ofarlega í háhýsum í gær fundu líklega einna mest fyrir jarðskjálftunum. Margir sem þar vinna treystu sér ekki til að ljúka vinnudeginum á staðnum og fóru heim. Þá veit fréttastofa til þess að sumir sem búa í blokkum hafi ekki þorað að sofa heima hjá sér í nótt. En er ástæða til að óttast að hús hér hrynji í skjálftum?

„Stutta svarið er að öll hús á Íslandi ættu að vera byggð og eru byggð með tilliti til jarðskjálfta. Það er bara krafa um það í byggingarreglugerð,“ segir Silvá Kjærnested, byggingarverkfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Í henni er vísað í Evrópureglur þar sem kveðið er á hversu mikið álag eða skjálfta hús á Íslandi verða að geta þolað.

Skiptir máli úr hverju húsin eru? Eru timburhús jafnörugg og hús úr steinsteypu?  

„Já, í rauninni. Það skiptir bara mestu máli hvernig þau eru byggð. Það skiptir náttúrulega gríðarlega miklu máli undirstöðurnar. Þær eru oftast mjög góðar á Íslandi. Það er oftast byggt á klöpp. Þannig að það skiptir náttúrulega mestu máli og viðhald líka og hönnun,“ segir Silvá.

Ef fólk er t.d. að leigja einhvers staðar getur það fengið að vita hvort húsið muni standast stóra skjálfta?

„Það er náttúrulega hægt að fá upplýsingar hjá byggingafulltrúa um hús. En ég held að flestir geti verið bara rólegir varðandi þetta á Íslandi. Ég held að við stöndum frekar vel,“ segir Silvá.

Hús hér á landi hafa skemmst til að mynda í Suðurlandsskjálftunum fyrir tuttugu árum og aftur fyrir þrettán árum. 

„En mesta hættan er frá lausamunum. Ég held að það sé aðalhættan. Ekki út af húsunum sínum. Ég held að þér standi ekki hætta af því. Festa myndir og ekki vera með hillur fyrir ofan rúm og allt þetta. Gæta að því. Það er langmikilvægast,“ segir Silvá.