Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Opna í Bláfjöllum eftir hádegi

25.02.2021 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Skíðasvæðið í Bláfjöllum verður opnað klukkan 14, segir í tilkynningu sem birtist á Facebook síðu svæðisins í hádeginu. Skíðasvæðinu var lokað síðdegis í gær eftir að hættustigi var lýst yfir á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga vegna mikillar skjálftavirkni.

Ákveðið var í framhaldinu að taka stöðuna aftur í hádeginu í dag um hvort hægt yrði að opna og er niðurstaðan að opna skíðasvæðið á milli 14  og 17:30.

Veðurspáin í kvöld sé óspennandi en ef það breytist og ákveðið verði að hafa opið áfram þá verði það tilkynnt síðar í dag. 

Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, sagði í fréttum RÚV í gær að hann væri í reglulegu sambandi við almannavarnir og ef til þess kæmi að það þyrfti að loka í skyndi, þá tæki enga stund að rýma svæðið. 

Tekið er sérstaklega fram í færslunni að allir verði að vera með grímu í röðunum og í lyftunum. Ekki megi nota buff í staðinn.  Þá er engin miðasala í Bláfjöllum; hún hefur færst yfir á netið vegna sóttvarna. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Facebook
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV