Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Mikið öryggi að vita að maður fari ekki út í óvissuna“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
„Ég get ekki beðið eftir saumavélunum,“ segir kona sem nýtir sér Skjólið, nýtt dagsetur Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir heimilislausar konur í Reykjavík. 

Opið hús fyrir heimilislausar konur 

Skjól opnaði fyrir stuttu í kjallara Grensáskirkju og er opið alla virka daga á milli ellefu og þrjú. Þar á að mæta konum af virðingu og kærleika, sama hvað líður dagsformi eða edrúmennsku. „Skjólið er opið hús fyrir konur sem eru heimilislausar, hafa glímt við heimilisleysi, eru nýkomnar í búsetuúrræði eftir heimilisleysi eða búa við ótryggar aðstæður,“ útskýrir Rósa Björk Brynjarsdóttir, umsjónarkona Skjólsins. Skjól er rekið af Hjálparstarfi kirkjunnar og fjármagnað af Kirkjuráði, Agnes Sigurðardótir biskup átti hugmyndina að dagssetrinu og var viðstödd opnun þess í dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Rósa Björk.

„Þykir vænt um konurnar sem setja líf sitt inn í okkar“

Talið er að á milli þrjátíu og fjörutíu konur í Reykjavík þurfi á svona stað að halda. Margar þeirra gista í Konukoti yfir nóttina. Dagný Ósk hefur reynslu af heimilisleysi og finnst þýðingarmikið að geta dvalið í Skjóli á daginn. „Þetta er rosalega mikið öryggi að vita til þess að maður fer ekki út í óvissuna klukkan tíu að morgni, og líka bara félagsskapurinn og að geta gert eitthvað á daginn, hafa eitthvað fyrir stafni.“ Hún segir það reyna á konur andlega að eiga ekki samastað og vita ekki hvar þær geta höfði sínu hallað næstu nótt. Þess vegna er hún þakklát fyrir konurnar í Konukoti, en sumar þeirra eru nú farnar að starfa í Skjóli. „Mér þykir ofboðslega vænt um allar konurnar sem eru að setja sitt líf inn í okkar,“ segir Dagný.  

„Þær sleppa ekkert við mig“

Emma Rós fagnar líka þessu nýja úrræði og sér fyrir sér að koma oft í Skjól. „Þær sleppa ekkert við mig, þetta er æðislegur staður.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Emma Rós

Í Skjóli geta konurnar hvílt sig, þvegið af sér, farið í sturtu og fengið léttan hádegisverð en líka myndað tengsl og sinnt tómstundum. Þá er þar viðtalsherbergi þar sem konurnar geta mælt sér mót við fagaðila, t.d. félagsráðgjafa. 

Emma Rós ætlar til dæmis að nýta tímann í Skjóli til að prjóna legghlífar og svo bíður hún spennt eftir saumavélunum sem eiga að koma á næstunni. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV