Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Álagið aldrei meira á Veðurstofuvefinn en í gær

25.02.2021 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Álagið á Veðurstofuvefinn í gær var meira en nokkru sinni, en sjötíu þúsund reyndu að komast á vefinn á stundarfjórðungi. Forstjóri Veðurstofunnar segir eitt af forgangsverkefnum stofnunarinnar að vefurinn geti annað álagi þegar stór-atburðir verða. 

Eðlileg fyrstu viðbrögð fólks þegar það finnur fyrir stórum jarðskjálfta er að athuga á vef veðurstofunnar hvað hann var stór. 

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar, segir að álagið á veðurstofuvefinn hafi verið tvöfalt meira í gær en eftir stóra skjálftann í október. „Mér fannst nú vefurinn standa sig mjög vel miðað við að álagið var miklu meira en nokkru sinni fyrr. En það er sannarlega hægt að bæta úr því,“ segir Árni.

Svipað stór skjálfti og í gær reið yfir í október og þá lá vefurinn niðri í tuttugu mínútur, í gær lá vefurinn niðri í tvær og hálfa mínútu en það tekur um fimm mínútur fyrir starfsfólk veðurstofunnar að vinna úr gögnunum.

„Við erum auðvitað mjög meðvituð um það að það sé mikilvægt að þetta sé í lagi og það séu ekki hnökrar á þessu. Þessi vinna er enn í gangi á þessu ári og næsta og þetta er eitt af forgangsverkefnunum að hafa þetta í lagi. Við vildum helst að hann gæti svarað svona toppum en það kostar auðvitað talsverða fjármuni.“

Þá segir Árni áskoranir felast í að gera sjálfvirku jarðskjálftaúrvinnsluna hraðvirkari. Það tekur um eina og hálfa mínútu fyrir kerfið að meta stakan skjálfta - en í gær komu tveir stórir hvor ofan í annan og þá getur tekið um og yfir fimm mínútur fyrir starfsfólkið að meta stærð og staðsetningu. „Það tekur alltaf ákveðinn tíma. það er líka tími sem við viljum stytta og fara í tvær þrjár mínútur en það er ákveðin áskorun.“