Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Leikskólabörn á jarðskjálftaæfingu rétt fyrir skjálfta

Mynd með færslu
Börnin í Fífuborg á æfingu skömmu áður en skjálftarnir riðu yfir. Mynd: Aðsend mynd
Börnin á leikskólanum Fífuborg í Grafarvogi brugðust hárrétt við stóru jarðskjálftunum í morgun. Þá voru aðeins nokkrar mínútur liðnar frá því að árleg æfing í viðbrögðum við jarðskjálftum var haldin í skólanum.

„Við erum alltaf jarðskjálftaæfingu einu sinni á ári og vorum ákkurat með hana í morgun, rétt áður en jarðskjálftinn reið yfir,“ segir Helga Sigurðardóttir leikskólastjóri á Fífuborg. 

„Yngstu börnin voru komin fram í fataklefa og fundu ekki mikið fyrir jarðskjálftanum þannig að hann fór framhjá þeim. Á elstu deildinni voru börnin ennþá inni á deild, fundu fyrir jarðskjálftanum og brugðust rétt við,“ segir Helga. „Um leið og jarðskjálftinn kom gerðu þau allt rétt og fóru undir borð. Þau skildu alveg hvað var að gerast, voru nýbúin að vera á æfingu.“

Æfingar í viðbrögðum við bruna eru haldnar þrisvar á ári og einu sinni á ári við jarðskjálftum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Frá æfingu í Fífuborg rétt áður en skjálftarnir riðu yfir í morgun.