„Velti stundum fyrir mér hvaða augum aðrir sjá mig“

Mynd: Sveinn Snorri Einarsson / Aðsend

„Velti stundum fyrir mér hvaða augum aðrir sjá mig“

23.02.2021 - 16:09

Höfundar

Sveinn Snorri Sveinsson kynntist filippseyskri eiginkonu sinni á stefnumótasíðu á internetinu. Þau hittust fyrst í Dubai og með þeim tókust miklar ástir. Þau búa á Egilsstöðum og Sveinn segist aldrei hafa grunað að það væri hægt að vera svo ástfanginn. En hjónin finna fyrir fordómum fólks fyrir samböndum íslenskra manna og filippseyskra kvenna.

Sveinn Snorri Sveinsson rithöfundur er búsettur á Egilsstöðum ásamt eiginkonu sinni Lornu M. Sveinsson sem kemur frá Filippseyjum. Hann hefur undanfarin ár unnið að bók um sambandssögu þeirra hjóna. Bókin heitir Sumar í september og lýsir ýmsum hindrunum sem þau þurftu að yfirstíga til að geta hafið nýtt líf saman á Íslandi. Tilgangur frásagnarinnar er meðal annars að vinna gegn fordómum fyrir hjónaböndum íslenskra karla og filippseyskra kvenna. Rúnar Snær Reynisson kíkti við hjá Sveini og ræddi við Svein Snorra um ástina sem breytti lífi hans. Í hlaðvarpi Ástarsagna er hægt að hlýða á allan þáttinn.

Einn og vinalaus eftir áfall í æsku

Sveinn varð fyrir áfalli nokkuð ungur og fann árum saman fyrir mikilli einsemd. „Ég stend uppi einn og vinalaus, það hverfa allir. Jafnvel þeir sem ég hafði verið með á leikskóla,“ segir hann. Sveinn hætti að drekka árið 1998 og fannst hann einangrast enn frekar.

Hann segir lífið hafa verið nokkuð viðburðalítið um árabil, þar til hann kynntist Lornu. Hann fór ekki í nám og hefur verið með örorku síðan árið 1995. Hann saknaði þess að eiga ekki eigin fjölskyldu en vissi ekki hvernig hann ætti að kynnast konu. „Þessi íslenska leið sem ég elst upp við sem unglingur, að fara á ball og slengja stelpu yfir öxlina og ganga með hana heim og eitthvað svona, það var ekkert að heilla mig og hentar mér ekki,“ segir hann. „Það sem mig vantaði var meira raunverulegt og tilfinningalegt. Ást. Ekki eitthvað yfirborðskennt.“

Hreifst af því hvernig hann sá framtíðina fyrir sér

Hann skráði sig inn á vefsíðu sem vinur hans benti honum á þar sem honum gafst tækifæri til að kynnast konum og spjalla við þær. Fæstar vöktu þær þó nokkurn áhuga hjá honum eða ekki fyrr en Lorna kom til sögunnar.

Lorna sagðist hafa hrifist strax af prófílnum sem Sveinn hafði búið til inni á síðunni. Hún heillaðist af lýsingu hans á framtíðinni og fannst tilvitnun hans góð. „Þetta var sex orða ævimining sem var Lost his mind, found his heart. Þetta fannst Lornu flott,“ segir Sveinn. Í lýsingu á framtíðinni sagðist hann sjá fyrir sér að eiga konu og börn og búa með þeim í friði og ró. „Þetta fannst henni líka flott.“

Ef konur stjórnuðu væri ekkert stríð

Í bókinni rifjar hann upp tölvupóst frá Lornu þar sem hún spurði meðal annars hvort hann hefði velt því fyrir sér að heiminum sé stjórnað af körlum. „Karlar eru djarfir, sterkir og hugrakkir og svo framvegis. Það ríkir stríð á milli þjóða því þannig takast karlar á,“ sagði Lorna meðal annars í póstinum. „Ef heiminum væri á hinn bóginn stjórnað af konum held ég að það væru engin stríð. Þjóðirnar væru bara að tuða. Það væri engin gereyðing held ég, aðeins siðferðiseining.“

Þessar hugleiðingar Lornu höfðuðu vel til Sveins og hann segir þær afar lýsandi fyrir konuna sína. „Þarna sjáum við hve frumlega og skemmtilega hugsun hún hefur, sem er einmitt það sem heillaði mig í upphafi. Og reyndar náttúrulega alla tíð síðan.“

Þurfti að ganga inn í filippseyskan söfnuð

Þegar þau loksins hittust í fyrsta sinn segist hann hafa fundið hvernig tveir leitandi hugar fundu sig saman. Og í dag eru þau afar samrýmd og vita oftast hvað hitt er að hugsa. „Einhvern veginn skiptir ekki máli að hún sé frá Filippseyjum og ég frá Íslandi. Við erum bara tvær manneskjur sem fundum ástina og áttum dásamlegt ástarævintýri sem teygir sig frá Íslandi til Dubaí og til Filippseyja þar sem ég bý með henni í nokkuð langan tíma.“

Ástarævintýri þeirra hefur ekki verið þrautalaust en þau yfirstíga allar hindranir saman. Til dæmis samræmist það ekki gildum þeirrar kirkju sem Lorna er alin upp í að hún giftist út fyrir kirkjuna. Það var því ekkert annað í stöðunni fyrir Svein en að ganga í kirkjuna. „Það var heilmikill prósess sem tók langan tíma. Það var ástæðan fyrir því að ég fór til Filippseyja og þurfti að búa þar. Ég þurfti að sækja messur tvisvar í viku til að vera gjaldgengur í kirkjunni.“

„Í raun verður hálfgerð sprenging“

En það var allt þess virði. Lífið breyttist til hins betra þegar Lorna kom í líf hans. „Í raun verður hálfgerð sprenging. Heimurinn opnaðist fyrir mér þegar ég kynntist Lornu,“ segir hann. „Í raun var þetta ekki mikil tilvera og ekkert einkalíf. Ég bý í mörg ár hjá foreldrum mínum og þurfti á því að halda að vera fullorðinn einstaklingur, búa með annarri manneskju og eiga líf með henni.“

Fordómar fyrir sambandinu

Hann hefur fundið fyrir fordómum sem hann segir íslenska menn og filippseyskar konur þeirra gjarnan verða fyrir. Fólk gruni oft að konurnar séu pantaðar og séu ekki af fúsum og frjálsum vilja í sambandinu. „Þetta er eitthvað sem maður sér og fær fréttir um, hræðilegt ofbeldi sem viðgengst í samböndum þar sem íslenskir karlmenn virðast hafa keypt konur og gert þær að sínum þræl. Misþyrmt þeim. Þetta er myndin sem við fáum í fjölmiðlum af blönduðum hjónaböndum af þessari gerð,“ segir Sveinn. „Stundum velti ég fyrir mér hvaða augum aðrir sjá mig en ég er ansi fljótur að hrista það af mér. Ég veit hver raunveruleikinn er.“

Á ekkert efni í hryllingssögu

Bókina skrifaði hann meðal annars til að vinna á fordómum fyrir samböndum eins og hans og Lornu. „Ég vel að segja fallega ástarsögu af góðu og ástríku sambandi í stað þess að segja hryllingssögu. Sem betur fer á ég ekkert efni í hryllingssögu en það er hryllingurinn sem við heyrum af,“ segir hann.

Á Íslandi býr nokkur fjöldi fólks frá Filippseyjum og hann segir augljóst að það búi ekki allar filippseyskar konur hér á landi við ofbeldi eða kynlífsánauð. „Öll hjónabönd fólks frá þessum löndum sem ég þekki til, það er ekki eitt einasta samband eins og það sem við sjáum í fjölmiðlum. Það mætti kannski fjalla um þetta á jákvæðari hátt og sýna eitthvað annað en bara hryllinginn.“

Í umræðunni felast líka fordómar gagnvart filippseyskum konum samkvæmt Sveini. „Að þær láti bara kaupa sig. Þær gera það ekkert, þetta eru alveg sömu konurnar og á Íslandi.“

„Þetta voru bestu níu dagar lífs míns“

Sveinn og Lorna áttu sinn fyrsta fund í Dubai og hann segir fundinn hafa verið eins og ævintýrið sem hann hafði ímyndað sér. „Ég er mjög rómantískur og gríðarlegur bókaormur. Ég sé ævintýrið, þetta er eins og ævintýrið sem ég las í bók þegar ég var lítill strákur,“ segir hann. „Það er þar sem ég sé úr þessu og mér fannst svo æðislegt að gera þetta. Að fljúga til London, þaðan til Dubai, vera á hóteli og hitta ástina í veðri sem er aldrei á Íslandi. Í fyrsta sinn sem ég fer út er ég í níu daga og þetta er stórkostlegt líf. Ég átti mína bestu níu daga lífsins.“

„Vissi ekki að það væri hægt að hafa svona tilfininngar“

Hann segist aldrei hafa órað fyrir því að það væri hægt að líða eins og honum líður með Lornu. „Ég vissi ekki að það væri hægt að hafa svona tilfinningar, að það væri hægt að vera svona ástfanginn. Ég vissi ekki að það gæti verið svona gott að eiga maka. Þetta hefur gjörbreytt lífi mínu,“ segir hann. „Ég er miklu hamingjusamari og miklu betri í ákveðnum hliðum. Það er svo skrýtið að þarna verður til annar veruleiki sem ég get verið í í staðinn fyrir að vera alltaf í þessu veikindalífi, einn á báti.“

Á ákveðinn hátt finnst honum hann hafa öðlast reisn sem einstaklingur við það að ganga í hjónaband. „Nú er ég að lifa sama lífi og aðrir. Mér finnst ég gjaldgengur í þjóðfélaginu, ég var gjörsamlega utanveltu áður en ég kynntist Lornu. Á einhvern undarlegan hátt gerði ég réttu hlutina til að ná í hana Lornu mína.“

Er algjör sprellikarl þegar þau eru tvö

Aðspurður segir hann að Lornu gangi vel að fóta sig í íslensku samfélagi þó tungumálið reynist stundum fjötur. „En það er erfitt fyrir mig að segja fyrir hana því hún hefur sinn reynsluheim. Í vinnunni er hún með vinnufélaga og hún á í sínum samskiptum við þá og hún finnur bæði fyrir velgengni og vonbrigðum með fólk, sem hún umgengst þar. En meiri velgengni.“

Hann segir Lornu hafa dregið fram í sér hliðar sem hann segir fáa þekkja, og hann sjálfur varla síðan hann var barn. „Ég læt eins og fífl þegar við Lorna erum ein því ég er að reyna að fá hana til að hlæja. Ég er eiginlega sprellikall,“ segir hann glettinn. „Ég verð að segja alveg eins og er að gamli geðlæknirinn minn myndi sennilega velta því fyrir sér hvort þarna væri annar persónuleiki á ferð. Ég er óstöðvandi í fíflaganginum þegar við erum tvö ein. Þetta er alveg æðislegt.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Sendi peninga til elskhugans sem reyndist ekki vera til

Menningarefni

„Ég var að kveðja þetta tímabil í lífi mínu“

Menningarefni

Kötturinn fann á sér að Jóhann kæmi ekki aftur heim