„Það verður að halda betur utan um okkur“

23.02.2021 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Kona sem verið hefur í reglubundnu eftirliti vegna frumubreytinga í leghálsi segir að heilbrigðiskerfið verði að halda betur utan um konur í þessari stöðu. Önnur kona sem beðið hefur eftir niðurstöðu skimunar síðan í ágúst ber ekki lengur traust til kerfisins og segir að sér finnist brotið á mannréttindum sínum sem konu.

Þegar heilsugæslan tók við leghálsskimun af Krabbameinsfélaginu um áramótin var ýmislegt ófrágengið. Tölvukerfið ekki klárt og ekki búið að semja við dönsku rannsóknastofuna sem nú greinir sýni frá Íslandi. Um 2400 sýni sem tekin höfðu verið á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í nóvember og desember lentu því á milli skips og bryggju. Forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu baðst í gær afsökunar á töfunum sem þetta hefur skapað.

Yfir þúsund konur bíða enn

Nú er búið að greina helming þessara sýna, en um 1200 konur bíða enn svara. EIn þeirra er Sigríður Guðmundsdóttir. Hún greindist með miklar frumubreytingar fyrir rúmum tuttugu árum, fór í stóra aðgerð og hefur síðan verið í reglubundnu eftirliti. Hún segir að að jafnaði hafi liðið 5-6 vikur frá skimun og þar til hún fékk svar en nú eru komnir tæplega fjórir mánuðir.
„Við sem erum að greinast aftur og aftur með hááhættugreiningu, það er bara ekki boðlegt að bjóða okkur upp á þetta. Það verður að halda betur utan um okkur,“ segir Sigríður. Að hennar mati var illa staðið að yfirfærslunni. „ég held að þetta sanni það enn einu sinni að það eru of margir að stjórnast og ráðskast en undirbúningurinn, skipulagið, fólkið sem veit er ekki haft nógu vel með í ráðum.“

Sýnið týndist

Dæmi eru um að konur í áhættuhópi hafi beðið lengur en fjóra mánuði. Eva Árnadóttir greindist með frumubreytingar og fór í keiluskurð í mars á síðasta ári. Hún átti að vera undir eftirliti og láta taka sýni sex mánuðum seinna, sem hún og gerði. Átta vikum seinna var ekkert svar komið. „Þá kemur í ljós að það er ekkert sýni, þá hafði það týnst einhvers staðar.“ Kvensjúkdómalækninum hennar þótti þetta miður en sá ekki annað í stöðunni en að hún kæmi aftur í skimun.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Eva Árnadóttir hefur beðið í 6 mánuði

Fylltist ótta 

Eva fór aftur í skimun í lok október og vegna yfirfærslunnar lenti það sýni í kassa. Hún bíður enn eftir niðurstöðu. Alls konar hugsanir hafa leitað á hana á biðtímanum. Ótti við það að vera hugsanlega með krabbamein, og að vegna tafa eða mistaka greinist það of seint. Slík dæmi hafi verið í umræðunni. Henni finnst að heilsugæslan ætti að halda konunum sem bíða upplýstum um stöðuna. „En við höfum ekki fengið neitt það eru engin svör þannig að ég upplifi að það sé verið að brjóta á mínum mannréttindum sem konu," hún hafi treyst því að sýnið færi í réttan farveg en nú beri hún ekki lengur traust til kerfisins. 

Hörð gagnrýni

Ákvörðunin um að láta greina sýnin ytra hefur sætt mikilli gagnrýni. Forsvarsmenn fagfélaga lækna hafa lýst henni sem aðför að heilsu kvenna og á þriðja þúsund hafa nú skrifað nafn sitt á undirskriftalista þar sem stöðunni er mótmælt. Heilbrigðisráðherra hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal vegna málsins síðustu daga.