Segir mestu skipta að byggja upp traust á ný

23.02.2021 - 23:18
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Heilbrigðisráðherra fullyrðir að þjónusta við skimanir vegna leghálskrabbameina verði ódýrari, aðgengilegri og öruggari hér eftir og mestu skipti að byggja upp traust á ný. Þingmaður Viðreisnar ætlar að óska eftir skýrslu um málið allt og vinnulag þess.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar spurði heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag um leghálssýni og greiningar þeirra sem hafi dregist fram úr hófi.

Þingmaðurinn spurði ráðherra sérstaklega af hverju sýnin hafi verið send úr landi og mat hverra hafi ráðið för. Byggja þurfi upp traust á ný að mati þingmannsins. „Háværasta gagnrýnin hún heyrist nú frá heilbrigðisstéttinni sjálfri og frá konum sérfræðingar á sviðinu lýsa efasemdum þeir gagnrýna og og tala  núna síðast um stórslys.“

Ráðherra sagði stöðuna í krabbameinsskimunum ekki hafa verið góða, konum hefði fækkað og því hafi leghálskrabbamein verið að greinast á alvarlegri stigum. Og vegna mistaka í haust hafi þurft að endurskoða tæp 5000 sýni.

Nú sé verið að byggja upp frekara traust og standa betri skil á greiningu sýna í nágrannalöndunum. „Nú hefur greiningarstöðum fyrir konur á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 19 frá áramótum það eru 19 fleiri staðir þar sem konur geta farið í skimun vegna leghálskrabbameina þannig að ég fullyrði það að staðan verður ódýrari þjónusta aðgengilegri þjónusta og öruggari þjónusta.“

Þorbjörg sagði að það færi best á því að óska eftir skýrslu frá ráðherra „um forsendur og áhrif þessa vinnulags um þessar breytingar með það að leiðarljósi að ná fram sátt og endurheimta traust og ég mun gera það.“