Rýmri reglur á morgun eftir 15 daga án smits í febrúar

Mynd með færslu
Biðraðir eftir COVID-sýnatöku heyra vonandi sögunni til Mynd: RÚV - Ljósmynd
Ekkert barn er með COVID-19. Aðeins er einn á sjötugsaldri og einn á sextugsaldri með virkt smit. Af þeim 17 sem eru í einangrun eru 9 á aldrinum 18 til 29 ára og í febrúarmánuði hafa 15 dagar verið smitlausir. Enda mega 50 koma saman á morgun, áhorfendur fá loks að mæta á kappleiki en þeir sem svíkjast um á landamærunum eiga yfir höfði sér 100 þúsund króna sekt.

Staðan á Íslandi er mjög frábrugðin því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum.  Í löndum eins og Svíþjóð og Þýskalandi virðist faraldurinn aftur vera að færast í vöxt.

Í gær greindist ekkert smit hér innanlands , annan daginn í röð.  Aðeins einn hefur greinst utan sóttkvíar í febrúar, sex smit hafa verið í sóttkví og 15 dagar hafa verið án smits. 

17  eru í einangrun og 12 þeirra eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Fjórir landshlutar eru án smits og í sex landshlutum af átta er enginn í sóttkví.

Ekkert barn er nú í einangrun og því er kannski við hæfi að á morgun taka gildi nýjur reglur um skólahald.

Þar gefst nemum í háskóla færi á að hefja staðnám að nýju, tveggja metra reglan er afnumin og í staðinn tekinn upp 1 metra regla. Hámarksfjöldi í framhalds-og háskólum hækkar í 150.  „„Þessar breytingar gera ótrúlega mikið fyrir félagslíf skólans. Þetta þýðir að við getum haldið litla viðburði í skólanum fyrir nemendur í skólanum. Ég sé fram á bjarta tíma,“ sagði formaður nemendafélags FG í kvöldfréttum RÚV.

Í grunnskólum er nemendur undanþegnir nálægðartakmörkunum og grímuskyldu. Ekki eiga þó fleiri en 150 nemendur að vera í hverju rými innan dyra.

Nýgengi smita innanlands er nú 1,4 sem er álíka hátt og það var þegar allt lék í lyndi í sumar og fólk ferðaðist innanlands.  Enda taka nýjar reglur um samkomutakmarkanir gildi á morgun. Fjöldatakmörk fara úr 20 í 50, áhorfendur eru leyfðir á kappleikjum, og kráreigendur geta lokað klukkan 23. 

Eins og við var búist er þó áfram haldið í tveggja metra regluna og grímuskyldu. Sóttvarnalæknir segir enda í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra að ekki sé hægt að fullyrða að landið sé „veirufrítt“ og því sé mikilvægt að viðhafa áfram varkárni í sóttvörnum. 

En það er fleira sem gerist á morgun því þá geta farþegar á leið til landsins átt von á sekt ef þeir standa ekki sína plikt. Þeir sem framvísa ekki neikvæðu COVID-prófi sem er yngra en 72 stundir eiga yfir höfði sér 100 þúsund króna sekt og þeir sem fara ekki í skimun á landamærunum fá sömu sekt. 

Sóttvarnalæknir hefur sagt að hættan á nýjum faraldri komi að utan. Ein af forsendum þess að hægt sé að slaka á aðgerðum innanlands sé að koma í veg fyrir að smit „leki“ í gegnum landamærin.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV