Býst við meiri staðkennslu samhliða tilslökunum

23.02.2021 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Rektor Háskóla Íslands býst við að staðkennsla hefjist í meiri mæli í næstu viku samhliða tilslökunum á sóttvarnaráðstöfunum, sem kynntar voru í hádeginu. Tilslakanir í nýrri sóttvarnareglugerð heilbrigðisráðherra gera háskólum kleift að hefja staðnám að nýju. Tveggja metra reglan verður að eins metra reglu og hámarksfjöldi nemenda verður 150 í hverju kennslu- eða lesrými. Þá er blöndun nemenda og kennara milli hópa heimil.

„Við höfum núna meiri möguleika á að taka á móti nemendum en við þurfum að fara yfir þetta. Þær taka ekki gildi fyrr en á mánudaginn og við erum með fund í neyðarstjórn á morgun. Þá munum við meta hvernig þetta verður vegna þess að í mörgum tilvikum er búið að leggja upp allt misserið með rafrænum hætti,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Jón Atli segir það vera verkefni einstakra deilda og kennara að ákveða fyrirkomulag kennslu næstu vikurnar. Hann býst við að staðkennsla hefjist í meiri mæli í næstu viku.

Má búast við hefðbundnara skólalífi í vor?
„Já, já. Þetta er allt að koma held ég. Lykilatriðið er að það verði ekki fleiri smit. Þá kemur þetta smám saman. Með haustinu leggjum við mikla áherslu á að þetta verði allt eins og venjulega,“ segir Jón.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV