Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stefnir í átök um efstu sætin

Kosningar 2016
 Mynd: Ísgerður Gunnarsdóttir - RÚV
Útlit er fyrir að nokkur barátta verði um efstu sæti á framboðslistum flokkanna fyrir Alþingiskosningarnar 25. september. Stjórnmálaflokkarnir hafa ýmsan hátt á því hvernig valið er á lista en viðbúið er að nokkrar breytingar verði í efstu sætunum víða, enda eru þau takmörkuð auðlind.

Skemmst er að minnast verulegra breytinga sem urðu á efstu sætum á listum Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum eftir uppstillingu.

Í Norðvesturkjördæmi er búist við átökum milli Haraldar Benediktssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, núverandi oddvita og Þór­dísar Kol­brúnar Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur varaformanns og ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Morgunblaðið greindi frá því fyrir skemmstu að þau hefðu bæði tilkynnt þá ætlun sína að fara fyrir framboði flokksins í kjördæminu.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG), ákvað á síðasta ári að láta af þingmennsku. Því lá fyrir að breytingar yrðu í forystu á framboðslista hreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi.

Efnt var til rafræns forvals og varð Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi, fyrir valinu í efsta sætið. Hann var í fimmta sæti í kjördæminu fyrir kosningarnar 2017.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður sóttist eftir því að leiða listann og sagði niðurstöðuna vonbrigði. Hún sætti sig þó við annað sætið eftir umhugsun en hún var einnig í öðru sæti fyrir síðustu kosningar.

Athygli vekur að Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður og ritari VG, er ekki í einu af efstu fimm sætunum þrátt fyrir að hafa gefið kost á sér í fyrsta til annað sæti.

Búast má við að hart verði tekist á um efstu sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í prófkjöri 29. maí næstkomandi. Vilhjálmur Árnason þingmaður, sem var í þriðja sæti í kosningunum 2017, stefnir á að ná efsta sætinu af Páli Magnússyni núverandi oddvita flokksins.

Páll hefur fullan hug á að sitja þar áfram en Ásmundur Friðriksson var í öðru sæti. Ásmundur ætlar sér eitt af efstu sætunum en Eva Björk Harðar­dóttir, odd­viti Skaft­ár­hrepps, sækist eftir öðru til þriðja sætinu.

Guðrún Hafsteinsdóttir, iðnrekandi úr Hveragerði, segist í samtali við fréttastofu enn vera að íhuga hvort hún ætli sér að taka framboðsslaginn í Suðurkjördæmi.

Hún segist hafa fengið hvatningu til að gefa kost á sér en sé ekki enn búin að taka ákvörðun um það.

Ari Trausti Guðmundsson leiddi lista VG í Suðurkjördæmi fyrir síðustu kosningar, en hyggst nú hverfa af þingi. Þegar hafa fjögur gefið kost á sér í fyrsta sæti listans.

Það eru þau Kol­beinn Óttars­son Proppé, þing­maður Reykja­víkur­kjör­dæmis suður og Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri Sandgerðisskóla.

Auk þeirra ásælist  Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og Samfylkingar, efsta sætið.

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir varaþingmaður og sauðfjárbóndi bættist nú um helgina í flokk þeirra sem sækjast eftir efsta sæti VG í kjördæminu.

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, er sagður hafa hug á efsta sæti á framboðlista flokksins í Suðurkjördæmi. Hann yfirgaf Flokk fólksins til að ganga til liðs við Miðflokkinn í tengslum við svokallað Klaustursmál.  

Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, varaformaður kjördæmisfélagsins, og Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi í Árborg eru einnig orðuð við framboð en enginn núverandi þingmanna flokksins hefur lýst yfir fyrirhugðu brotthvarfi af þingi.

Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins, er talinn geta veitt Önnu Kolbrúnu Árnadóttur þingmanni samkeppni um annað sæti flokksins í Norðausturkjördæmi en næsta öruggt er talið að formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ásælist áfram efsta sætið í kjördæminu.

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, stjórnmaður í Isavia og varaþingmaður, hefur verið nefnd sem væntanlegur forystumaður á einhverjum lista Miðflokksins. Hún er systir Sigmundar Davíðs.  

Einnig hefur verið skorað á Vigdísi Hauksdóttur núverandi borgarfulltrúa flokksins að taka sæti á lista flokksins sem þykir skorta konur og yngra fólk í efstu sæti lista.

Að minnsta kosti þrjú munu takast á um oddvitasæti Pírata í Norðvesturkjördæmi í rafrænu prófkjöri 3. til 13. mars næstkomandi. Píratar náðu ekki inn manni í kjördæminu þegar kosið var 2017.

Í dag bættist Magnús Davíð Norðdahl, starfandi lögmaður, í hóp þeirra Katrínar Sifjar Sigurgeirsdóttar, fyrrverandi formanns kjaranefndar Ljósmæðrafélags Íslands, og Gunnars Ingibergssonar, útgerðarmanns og tölvunarfræðinema.

Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði sagði í þættinum Víglínan á Bylgjunni um helgina að baráttan um efstu sæti framboðslista hefði harðnað eftir að flokkum fjölgaði á Alþingi.

Hann sagði að Sjálfstæðisflokknum undanskildum keppi fólk um örfá þingsæti. Nýtt fólk þurfi að ryðja öðrum þingmönnum út. „Þetta er algjör gjörbreyting á því ástandi sem var hér fyrr á árum, “ sagði Eiríkur.

Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur verður gestur Kastljóss í kvöld til að ræða stjórnmálin á Íslandi í aðdraganda kosninga.