„Við fórum og fengum okkur ís eftir keppnina,“ segir Auður Aþena Einarsdóttir sem situr í sterku Gettu betur-liði Tækniskólans ásamt Emil Una Elvarssyni og Þorsteini Magnússyni. Liðið hafði betur gegn Fjölbrautarskólanum í Ármúla á föstudag eftir spennandi viðureign.
Þau í Tækniskólaliðinu fengu langþráð frí um helgina til að kasta mæðinni. En nú er allt farið á fullt á ný í undirbúningi. „Við verðum rekin af stað með harðri hendi,“ segir hún glettin. Hún ræddi við Felix Bergsson í Fram og til baka á Rás 2 um undirbúning fyrir keppnina og magnaða uppskeru.
Skólinn er á mikilli siglingu í keppninni en í fyrra komust þau í sjónvarpsviðureign í fyrsta skipti og nú enn lengra. „Þetta er met á eftir meti sem við erum að slá,“ segir Auður sem kveðst spennt fyrir næstu viðureign.
Á föstudaginn eigast við lið Menntaskólans við Hamrahlíð og Verslunarskólans, og að þeirri viðureign lokinni verður dregið til undanúrslita. Þá kemur í ljós hverjum Tækniskólinn mætir næst. Auður segist ekki eiga sér neinn draumaandstæðing enda séu öll liðin góð. „Það eru allir mjög sterkir og búnir að æfa sig mikið.“
Auður er á náttúrufræðibraut í Tækniskólanum og líkar það mjög vel. Hún er skráð í tölvutækni og lærir því einnig forritun í náminu. Hún er þó ekki viss um hvað hana langi að læra í Háskóla enda úr nægu að velja.
En Auður er ekki bara á fullu í námi, verkefnaskilum og í æfingum fyrir Gettu betur. Hún er mjög öflug í félagsstarfi skólans, er formaður Málfundafélagsins og sér um aðhald í kringum bæði Morfís-ræðukeppnina og Gettu betur. Auk þess situr hún í stjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema.
Stjórnin hefur undanfarið setið fundi með Menntamálaráðherra til að koma á framfæri skoðunum nemenda á málefnum þeirra. Þau stóðu nýverið fyrir könnun á líðan nemenda í faraldrinum og Auður segir að þær niðurstöður verði birtar fljótlega. Það sé ljóst að nemendum hafi almennt liðið verr í faraldrinum og hún er fegin að samkomutakmarkanir hafi verið rýmkaðar svo nemendur geti aftur mætt í skólann og hitt kennara og hvert annað.
Felix Bergsson ræddi við Auði Aþenu Einarsdóttur í Fram og til baka á Rás 2.