Demó-upptökur Halla Reynis reyndust mikill fjársjóður

Mynd: RÚV / RÚV

Demó-upptökur Halla Reynis reyndust mikill fjársjóður

22.02.2021 - 14:24

Höfundar

Rúmum mánuði eftir að Halli Reynis tónlistarmaður lést barst fjölskyldu hans símtal um að til væru upptökur fyrir hljómplötu sem hann hafði unnið að um nokkurt skeið. „Þetta er búið að taka á köflum ágætlega mikið á,“ segir tvíburabróðir Halla.

Út er komin hljómplatan Söngur vesturfarans sem er í raun síðasta plata Halla Reynis, en hann lést 52 ára að aldri í september 2019. Halli lagði grunninn að plötunni með meistaraverkefni um vesturfarana árið 2015 og dreymdi um að gera eitthvað meira úr þessu verkefni eftir að platan kæmi út. Hann sá fyrir sér leikhús og tengingu við Íslendingaslóðir í Vesturheimi og kennsluefni. 

Halli hafði ætlað sér að hefja upptökur á plötunni haustið 2019 en féll frá áður en vinnan hófst. Nokkrum vikum síðar fékk fjölskylda hans símtal um að til væru demó-upptökur fyrir plötuna sem Halli hefði tekið upp í hljóðveri.

Tvíburabróðir Halla, Gunnlaugur Reynisson, segir að símtalið hafi reynst þýðingarmikið. „Það hefði verið ógreiningur að gera þetta án aðkomu Halla. Það hefði alveg verið hægt að syngja þetta inn en þetta hefði aldrei orðið hans plata ef einhverjir aðrir færu að gera þetta.“

Mynd með færslu
 Mynd: G.Hansson - RÚV
Gunnlaugur Reynisson, tvíburabróðir Halla Reynis.

Upptökurnar voru það vandaðar að unnt var að vinna ofan í hljóðrásirnar og nýta það sem Halli hafði þegar lagt til. Fjölskylda hans og nokkrir vinir í tónlist lögðust á eitt og nú er afrakstur þeirrar vinnu kominn út.

Það leið ekki langur tími frá því að Halli féll frá þar til þau fengu upptökurnar í hendurnar. Gunnlaugur segir að ferlið hafi tekið mjög á tilfinningalega.

„Þetta er búið að taka á köflum ágætlega mikið á. Ég get ekki sagt annað. Það var oft sem ég kom heim og hugsaði: Ég þarf að hringja í Halla og spyrja hvað honum finnst um þetta. Maður var mikið að pæla í hvernig honum hefði litist á þetta og hvað hann hefði verið ánægður með. Þetta reyndi rosalega á á tímabili. Það var mjög sterk tilfinning í síðustu viku að vera allt í einu með diskinn í höndunum og afurðin klár. Það var rosalega gott.“

Mynd með færslu
 Mynd: - - Hallireynis.is

Rætt var við Gunnlaug Reynisson í Mannlega þættinum á Rás 1.