Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stærsta sprenging aldarinnar

Mynd: Jón Björgvinsson / RÚV

Stærsta sprenging aldarinnar

21.02.2021 - 14:43

Höfundar

Í ágúst í fyrra varð mesta sprenging aldarinnar þegar 500 tonn af ammóníum-nítrati sprakk í loft upp við höfnina í Beirút, höfuðborg Líbanon. Rykið eftir sprenginguna var ekki fyrr sest yfir borgina en kastljósi alþjóðlegra fjölmiðla var beint eitthvert annað. Yasmina Hilal segir Þórði Inga Jónssyni sögu sína af sprengingunni í Beirút.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Klukkan níu mínútur yfir þrjú að íslenskum tíma 4. ágúst síðastliðinn varð sprenging í Beirút, höfuðborg Líbanons, sem í raun skók alla heimsbyggðina. 

Þetta var sjötta stærsta sprenging sögunnar fyrir utan kjarnorkusprengingar. Á þriðja hundrað manns létust, 6.500 slösuðust og 300 þúsund misstu heimili sín. Sprengingin var svo stór að íbúar í nærliggjandi löndum fundu fyrir henni. Slysið varð þegar 500 tonn af ammóníum-nítrati, túnáburði sem geymdur var við gáleysislegar aðstæður í vöruskemmu við höfnina, sprakk í loft upp.

Myndbönd og ljósmyndir af þessum voðaatburði flugu um heimsbyggðina næstu sólarhringana og fjallað var um atburðinn í flestum fjölmiðlum heimsins.

En hvað svo?

Rykið eftir sprenginguna var ekki fyrr sest yfir borgina en kastljósi alþjóðlegra fjölmiðla var beint eitthvert annað. 

Yasmina Hilal er 23 ára ljósmyndari, lista- og kvikmyndagerðarkona sem frá Beirút. Hver er hennar veruleiki nú? Við slógum á þráðinn til Yasminu til að heyra upplifun hennar af þessum miklu hörmungum og eftirmálum þeirra, tæpu hálfu ári eftir þennan örlagaríka dag.

Þegar covid-faraldurinn hófst í Líbanon í mars var Yasmina á leið frá Los Angeles, þar sem hún var búsett, til Dúbaí til að taka þátt í mánaðarlöngu verkefni. Þegar hún kom til Dúbaí komst hún að því að verkefninu hafði verið aflýst svo að hún ákvað að heimsækja fjölskyldu sína í Beirút. Hún bjóst við að stoppa stutt en reyndin varð önnur.

Yasmina var stödd heima hjá vinkonu sinni þegar sprengingin varð. Þær sátu að snæðingi þegar þær fundu fyrstu höggbylgjuna um sexleytið. Yasmina hafði búið í Kaliforníu og gerði því ráð fyrir að þetta væri jarðskjálfti svo þær leituðu skjóls á ganginum.

Þegar önnur sprengingin, sú stærri, reið yfir fannst þeim eins og húsið myndi hrynja. Glersvalirnar fyrir ofan kvöldverðarborðið hrundu ofan á borðið einmitt þar sem vinkonurnar höfðu setið örskömmu áður. Yasmina náði engu símasambandi í fyrstu þannig að það var engin leið að vita hvað hefði orðið um vini og vandamenn. Eftir sprenginguna gekk Yasmina heim á glerbrotum en heimili hennar var nánast í rúst. 

Loftið í borginni var slæmt og enginn vissi enn í raun hvað hafði átt sér stað. Faðir Yasminu sagði henni að ná í vegabréfið sitt og byrja að pakka því fjölskyldan ætlaði að halda upp í fjöllin umhverfis Beirút. Hún var ennþá í losti, gat ekki andað og þurfti að grípa til kvíðastillandi lyfja.

Seinna komst Yasmina að því að frænka hennar hefði orðið illa úti í sprengingunni. Glerbrot höfðu lent á andliti hennar og þurfti að saum í hana 100 spor. Hún átti kunningja sem létust og vini sem slösuðust alvarlega. Hún hefur rætt við fjölda fólks fólki sem lenti í þessu - margt af því missti heimili sitt.

Yasmina segir að það sé ennþá afar erfitt að meðtaka það sem gerðist. Fjölmargir fá ennþá martraðir og kvíðaköst enda var þetta stærsta sprenging aldarinnar.

Hún segir að þó að nýjar fréttir taki við og atburðurinn gleymist hratt sé enn þörf á að fjalla um hörmungarnar í Beirút. Efnahagskreppa, spilling í stjórnmálum og hungursneyð eru verkefni sem bíða lausnar, brýn málefni. Þess má geta að síló með nánast öllum kornforða þjóðarinnar brann til kaldra kola. 

Þótt eyðileggingin hafi verið gífurleg bjargaði það borginni, og líklega öllu landinu, að sprengingin varð við hafið og sílóið, sem tóku við 60% af högginu. Ef svo hefði ekki verið, hefðu Yasmina og allir í kringum hana farist.

Yasmina segir að ríkisstjórnin hafi ekki brugðist við vandanum á neinn hétt heldur stungið höfðinu í sandinn. Þess í stað komu ótal sjálfboðaliðar til bjargar. Helgina eftir sprenginguna voru gríðarmikil mótmæli en henni finnst ekkert hafa breyst og ástandið virðist vonlaust.

Svokölluð októberbylting hófst í Líbanon árið 2019 og hafa mótmæli verið viðvarandi en það hefur reynst erfitt að hrinda af stað byltingu í miðjum faraldri. Í mótmælunum eftir sprenginguna beitti lögregla piparúða og táragasi, skaut byssukúlum og gúmmíkúlum og sendi marga á spítala. Yasmina var þarna í hringiðunni miðri og lenti í táragasinu. Fjöldi hjálparstarfsmanna eru enn í borginni eftir sprenginguna en samkvæmt Yasminu verður endurbygging borgarinnar erfiðasti hluti ferlisins.

Sá borgarhluti sem varð verst úti í sprengingunni var miðja menningar í Beirút, sem hefur oft verið kölluð París Miðausturlanda. Tónlistar- og listasena borgarinnar lenti því illa í því. Einnig jafnaðist fjöldi skrifstofa, tískuhúsa, gallerýa og veitingastaða við jörðu en þarna var að finna besta mat sem völ er á. Örfá kaffihús og veitingastaðir hafa verið opnuð á ný en faraldurinn og efnahagskreppan gera erfitt fyrir. 

Yasmina segir leitt hve lítil hjálp hafi borist frá ríkisstjórn landsins og það sé synd að sjá hvernig hefur farið þessari miklu tónlistar- og listaborg. Það er ekki lengur hægt að lifa á listinni í Beirút.

Hún segist taka einn dag í einu. Það eru engin störf í boði, ekkert er opið og þeir sem hafa fasta búsetu í borginni hafa forgang. Hún segist þurfa að velja milli þess að fara aftur til Bandaríkjanna, fara í meistaranám í Berlín í Þýskalandi eða vera áfram í heimaborg sinni og sjá hvað setur.

Samkvæmt Yasminu er bylting ekki í augsýn. Ríkisstjórnin er ekki til staðar og herforingjar ráða ríkjum. Eigi landið að geta endurheimt sína fyrri dýrð og orðið sjálfbær þjóð þarf að losna við alla ráðamenn og herforingja. Henni líður eins og íbúarnir sé aukaleikarar í eigin lífi og geti lítið gert í augnablikinu.

Þó sé mikilvægt að halda áfram umræðunni um Líbanon og að fólk fræðist um ástandið þar. Fólkið í landinu vill einfaldlega halda lífi og öll hjálp sé vel þegin.