Ný þáttaröð dregur upp óhugnanlega mynd af Allen

epa05234417 (FILE) A file picture dated 15 May 2015 shows US director Woody Allen posing during the photocall for 'Irrational Man' at the 68th annual Cannes Film Festival, in Cannes, France. The new movie from Woody Allen, Cafe Society, was
 Mynd: EPA

Ný þáttaröð dregur upp óhugnanlega mynd af Allen

21.02.2021 - 14:46

Höfundar

„Ég held að margir, jafnvel þeir sem hafa varið Woody Allen, eigi annað hvort eftir að snúast hugur eða sjá hlutina öðruvísi,“ segir Kirby Dick, annar leikstjóri heimildarþáttaraðarinnar Allen v. Farrow sem frumsýnd verður á HBO í kvöld. Hún er sögð draga upp óhugnanlega mynd af leikstjóranum og varpa nýju ljósi á ásakanir Dylan Farrow, fyrrverandi stjúpdóttur hans.

Fátt hefur klofið Hollywood jafn mikið og þær ásakanir Dylan Farrow, fyrrverandi stjúpdóttur Woody Allen, um að hann hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var sjö ára. 

Stórstjörnur stutt Woody Allen

Allen, sem er af mörgum talinn einn fremsti kvikmyndagerðarmaður sinnar kynslóðar, hefur ávallt neitað sök og sagt að þessar ásakanir megi rekja til forræðisdeilu sinnar við Miu Farrow, fyrrverandi eiginkonu sína. 

New York Times fjallaði ítarlega um deiluna sem var ansi hörð og lauk með úrskurði dómara árið 1994. Sá úrskurður var leikstjóranum ekki í vil heldur lýsti honum sem hálfgerðri ófreskju. 

En svo virtist allt gleymt og grafið og Allen hélt áfram að vinna með mörgum skærustu kvikmyndastjörnum samtímans sem studdu hann opinberlega eða neituðu að taka afstöðu.

Virtist ósnertanlegur 

Allen virtist ónæmur fyrir #metoo-byltingunni þar sem Ronan Farrow, sonur hans og Miu Farrow, var í stóru hlutverki með afhjúpun sinni á kynferðisbrotum kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein.

Vendipunkturinn var grein Dylan Farrow í Los Angeles Times þar sem hún spurði kvikmyndaheiminn af hverju hann hlífði Woody Allen.

Kvikmyndastjörnur eins og Kate Winslett, Blake Lively og Greta Gerwig voru krafðar svara við því hvers vegna þær hömpuðu þeim konum sem segðu frá ofbeldi Weinstein en færu undan í flæmingi þegar talið bærist að Woody Allen og störfum þeirra fyrir hann.

Dylan benti á í grein sinni að saksóknari hefði talið sig hafa ástæðu til að ákæra leikstjórann fyrir brot sitt. Ákvörðun um að gera það ekki hefði verið tekin til að vernda hana.  „Það er almannatenglum Allen og lögmönnum hans að þakka að fáir vita þetta.“ 

Hann hefði ítrekað orðið uppvís að óviðeigandi hegðun gagnvart henni þegar hún var barn og verið neitað um forræði yfir henni.

Allen út í kuldann

Greinin varð til þess að leikarar fóru smám saman að snúa baki við Allen og sögðust jafnvel sjá eftir því að hafa unnið með honum.  Að lokum ákvað Amazon, sem hafði gert við hann samning um gerð kvikmynda og sjónvarpsþátta, að slíta samstarfinu við hann. Fyrirtækið sýndi ekki síðustu kvikmynd hans,  A Rainy Day in New York.

Og nú er að koma heimildaþáttaröð þar sem þessi saga er rakin í fjórum þáttum.

Kirby Dick og Amy Ziering, leikstjórar þáttaraðarinnar, hafa mikla reynslu af því að fjalla um jafn eldfimt og erfitt efni og kynferðisofbeldi er. Kvikmynd þeirra On the Record var um mál upptökustjórans Russell Simmons og The Hunting Ground sagði frá því hvernig ásökunum um kynferðislegt ofbeldi á heimavistum bandarískra háskóla er oft sópað undir teppið.

Ný gögn sem aldrei hafa sést áður

Í frétt Guardian kemur fram að Dick og Ziering hafi verið efins í fyrstu um hvað væri nýtt í máli Woody Allen sem hafi verið fjallað svo ítarlega um síðustu ár.  Eftir að hafa rætt við Dylan Farrow sannfærðust þau að það snerist ekki eingöngu um að orð stæði gegn orð.

Þau komust yfir yfir gögn, dómskjöl og vitnisburði og margt af því hefur ekki áður komið fyrir almenningssjónir. 

Í viðtalinu við Guardian segja Dick og Ziering að þáttaröðin eigi ekki að kveða upp neinn dóm yfir Allen heldur sé hún bara niðurstaða úr ítarlegri rannsókn þeirra.  AFP bendir á í umfjöllun sinni um þáttaröðina að hina hliðina vanti; ekki er talað við leikstjórann, eiginkonu hans eða soninn Moses sem hefur síðustu ár tekið upp hanskann fyrir föður sinn.

Allen hafnaði ítrekaði beiðnum um viðtal.  Í staðinn eru í myndinni spiluð hljóðbrot af upplestri leikstjórans á bók sinni Af engu tilefni. Sem gagnrýnandi í Víðsjá fór býsna hörðum orðum um í dómi sínum. Sagði hana sýna að Allen væri ekkert nema „lágkúrulegur botnfiskur,“ sem flaggi siðblindu sinni skammlaust.

Með þráhyggju fyrir ungum stúlkum

Í umfjöllun AFP-fréttastofunnar segir að í myndinni sé sjónum einnig beint að óeðlilegum áhuga Woody Allen á ungum stúlkum.  Og það er ekki í fyrsta skipti sem sá áhugi kemur upp á yfirborðið.  New York Magazine birti grein árið 2014 með fyrirsögninni „Stutt ágrip um óviðeigandi hegðun Woody Allen gagnvart ungum stúlkum,“  sem segir meira en mörg orð.

Rithöfundurinn Richard Morgan, sem fór í gegnum minnisblöð leikstjórans frá upphafi ferils hans, sagði Allen haldinn þráhyggju gagnvart ungum stúlkum í grein sem hann skrifaði í Washington Post fyrir þremur árum.

Í þáttaröðinni, sem verður frumsýnd á HBO í kvöld, eru jafnframt birt málsskjöl úr dómsmálum sem benda til þess að hann hafi átt í kynferðislegu sambandi við ættleidda dóttur Miu Farrow, Soon-Yi Previn, þegar hún var undir lögaldri.  Soon-Yi kynntist Allen þegar hún var sextán ára og þau eru gift í dag, hún er 50 ára, en hann 85 ára.

Vald frægðarinnar

Þáttaröðin er einnig sögð sýna að Allen hafi á markvissan hátt, meðal annars í gegnum fjölmiðla, grafið undan máflutningi Dylan og trúverðugleika móður hennar. Mia Farrow segir frá því sjálf að henni hafi nánast verið úthýst úr Hollywood vegna deilunnar við fyrrverandi eiginmann sinn.

Dick segir við Washington Post að þótt myndin beri nafn Allen þá sé hún eiginlega ekki um hann. „Þetta er mynd um vald frægðarinnar og spuna og hvernig við erum öll sítengd og trúum hlutum ef þeir eru sagðir nógu oft.“