Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Náði mér á strik þegar ég fór í Stýrimannaskólann“

Mynd: RÚV / Skjáskot

„Náði mér á strik þegar ég fór í Stýrimannaskólann“

21.02.2021 - 20:00
Páll Árni Pétursson pílukastari, sem vann pílukastkeppnina á Reykjavíkurleikunum fyrr í mánuðinum, fékk í raun áhuga á pílu fyrir tilviljun. Hann er stýrimaður í Grindavík, og æfir sig reglulega um borð í togaranum. Við settumst niður með Páli í vikunni og heyrðum hvernig gengur að samræma pílukastið og sjómennskuna.

 

Páll Arni er þrítugur stýrimaður sem er fæddur og uppalinn í Grindavík þar sem hann býr ásamt konu sinni og tveimur sonum. Hann sigraði í pílukastinu á Reykjavíkurleikunum en hann vann Matthías Örn Friðrikson örugglega í úrslitaleiknum 7-1, en vinna þarf sjö leiki til að tryggja sér sigurinn. Þá keppti Páll í fyrsta sinn fyrir landsliðið haustið 2019 þegar hann fór til Rúmeníu og keppti á heimsmeistaramóti Alþjóðapílusambandsins. En það var í raun fyrir algera tilviljun sem hann fékk áhuga á pílu, þá tvítugur.

„Var að spila með félögunum fyrir slysni á pöbbunum hérna í Grindavík,“ segir Páll Árni.

„Við vorum að kasta þarna á meðan við biðum eftir matnum. Svo vissi ég að pabbi ætti spjald inni í skúr sem hann ætti eftir að setja upp, hann var náttúrulega alltaf að kasta hérna áður fyrr. Hann setti það upp fyrir okkur og við spiluðum til fjögur, fimm um nóttina og vorum alveg að drepast úr harðsperrum eftir það. Það var kveikjan í þessu.“

Liggur í ættinni

En það má kannski segja að þetta sé í blóðinu, því pabbi Páls, Pétur Hauksson, var líka fær í pílu, og sömuleiðis föðurbróðir Páls Guðjón Hauksson.

„Það má segja það, hann varð Íslandsmeistari ´88 og bróðir hans er líka margfaldur Íslandsmeistari og Norðurlandameistari. Þetta er í genunum, ætli það ekki,“ segir Páll.

Páll er stýrimaður á togaranum Sturlu og segir það ganga upp og ofan að samræma sjómennskuna og pílukastið.

„Það hefur gengið ágætlega. Ekkert eins og að vera alltaf í landi og getað æft sig stíft en mér hefur gengið ágætlega. Það er líka svosem gott, það er alltaf gott að taka smá pásu frá þessu, eða mér finnst það. Ekki vera að æfa of mikið, taka svona pásur inn á milli.“

„Ég setti upp spjald hérna um daginn [um borð í togaranum]. Við erum alltaf að landa tvisvar í viku og þegar við komum að landi get ég kastað aðeins þegar það er búið að binda skipið og verið að landa. En maður er svosem ekki að keppa við neinn eða neitt svoleiðis. Það er alltaf besta æfingin að keppa, sérstaklega á móti betri spilara.“

„Ég náði mér á gott strik þegar ég fór í Stýrimannaskólann og útskrifaðist þaðan síðasta vor. Þá náði ég að kasta á hverjum degi og náði mér upp á aðeins hærra plan og hef náð að viðhalda því. Maður var alltaf á sjó á frystitogaranum átta mánuði á ári og þá var erfitt. Maður fékk svosem góð frí inn á milli en var alltaf í viku eða tíu daga að ná sér á strik eftir að hafa verið 3-4 vikur úti á sjó og ekkert getað kastað,“ segir Páll Árni.

Komið mikið barna- og unglingastarf

Þó svo að áhugi Páls á pílunni hafi kviknað á bar, segir hann það langt því frá að pílukast eigi aðallega heima á skemmtistöðum.

„Já, þetta er að breytast. Það er komið svo flott barna- og unglingastarf í þessu og það er líka að breyta þessu. Það er ekkert samasemmerki milli pílukasts og áfengis. Alls ekki.“

Á síðasta ári fékk Pílufélag Grindavíkur nýja og glæsilega aðstöðu í íþróttahúsinu í bænum. Píla hefur alltaf verið vinsæl í Grindavík, en Páll segir áhugann hafa margfaldast með tilkomu aðstöðunnar.

„Það eru fleiri að koma saman og kasta og æfa sig. Svona fjölbreytileiki. Konurnar eru líka komnar í þetta. Það eru komnar 40 konur í Grindavík sem eru skráðar í félagið og eru að kasta reglulega.

„Hvernig gengur að vekja áhuga hjá börnunum á íþróttinni?“

Það gengur mjög vel. Maður er með nokkur spjöld heima, eitt fyrir þennan þriggja ára og svo sjö ára, það eru allar hæðir og þeir eru að kasta mikið og eiga pílur og boli. Eins bara í Grindavík, það er fullt af krökkum sem eru að æfa og kasta. Það er örugglega spjöld í hverjum skúr í Grindavík.“

„En hvert stefnirðu, ertu með háleit markmið?“

„Nei, það er ekkert mikið að gera hjá mér í pílunni í dag. Nú er bara vertíðin að byrja hérna og þá kemst voða lítið annað að hjá manni, maður er bara með hausinn við það.“

„Er enginn áhugi á að verða bara atvinnumaður í pílu?“

„Ekki yfir vertíðina, alla vega,“ segir Páll Árni Pétursson, pílukastari og stýrimaður.