„Þetta var ótrúlegt dæmi"

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta var ótrúlegt dæmi"

20.02.2021 - 08:30

Höfundar

„Þetta var ótrúlegt dæmi. Þetta var geggjuð upplifun. Þegar maður hugsar til baka þá auðvitað vill maður ekkert breyta því,” segja Klara Elíasdóttir og Steinunn Camilla Sigurðardóttir sem eru hvað þekktastar fyrir að hafa verið í stúlknahljómsveitinni Nylon sem seinna varð að The Charlies.

Sjónvarpsþættir og bók um Nylon

Klara og Steinunn Camilla voru aðeins átján og nítján ára gamlar þegar ferill þeirra hófst. Þá setti Einar Bárðarson saman stúlknabandið Nylon og auglýsti eftir stelpum sem kynnu að syngja og dansa fyrir sumarstarf.. Haldnar voru áheyrnarprufur og öllu ferlinu fylgt eftir.

Þær þekktust úr Verslunarskólanum þar sem þær voru báðar við nám auk Ölmu sem var líka með þeim í hljómsveitinni. „Þetta átti bara að vera sumarstarf,” segir Klara en það varð heldur betur lengra. Gerðir voru sjónvarpsþættir um hljómsveitina og gefnar út bækur og geisladiskar með þeim. Þær urðu frægar á Íslandi og það hafði bæði kosti og galla. „Þetta var mjög skrýtið," segir Steinunn Camilla. Þær segja þó að þetta hafi fyrst og fremst verið skemmtileg og lærdómsrík reynsla. Þær voru gestir Viktoríu Hermannsdóttur í Gestaboði og rifjuðu upp ótrúleg ævintýri á ferlinum.

Birtar myndir af húsunum þeirra

„Ég held það hafi verið gott hvað við vorum ungar, maður kom að þessu svolítið grænn og fannst athyglin bara skemmtileg. Það sem við vorum heppnastar með, og erum enn heppnar með, er hvor önnur,” segir Klara. Á þessum tíma voru samfélagsmiðlar ekki til en mikið var fjallað um líf þeirra í blöðum á borð við Séð og heyrt og Hér og nú. „Einu sinni voru birtar myndir af húsunum okkar, við vorum allar hágrátandi,” segir Klara og Steinunn Camilla tekur undir. „Við kærðum það.” Þær segja að það hafi vissulega verið óþægilegt. Í flestum tilvikum hafi krakkar verið að mæta heim til þeirra og banka upp á. Þær segjast þó alltaf hafa reynt að vera góðar fyrirmyndir. 
„Ég held að okkur hafi tekist ágætlega til, ég er alla vega mjög stolt af því þegar ég lít til baka, hvernig við höndluðum þetta miðað við hvað við vorum ungar.“

Á tónleikaferðalagi um Bretland í heilt ár

Eftir að hafa slegið í gegn hér heima var stefnan sett út í heim. Þær fóru á tónleikaferðalag um Bretland í heilt ár með hljómsveitunum McFly, Girls Aloud og Westlife. Þær léku á risastórum íþróttaleikvöngum, stundum fyrir hátt í 20 þúsund manns. 

„Ef maður hefði verið að gera þetta einn, hefði verið einn á hótelherbergjunum, held ég að maður hefði komið allt öðruvísi út úr þessu og þetta hefði verið allt öðruvísi upplifun og ekki jafn skemmtileg. Ég held að það sem gerði þetta svona skemmtilegt og gott hafi verið að hafa félagsskapinn,” segir Steinunn Camilla. Það var dagskrá hjá þeim frá morgni til kvölds. „Við byrjuðum alla daga eldsnemma í útvarpsviðtölum, fórum þaðan í skóla, inn í menntaskóla og grunnskóla að koma fram í hádegishléum. Þetta er eitthvað sem tíðkast þarna, að fá skemmtikrafta sem eru að byrja til þess að koma og tala og spjalla við krakkana. Við að segja frá Íslandi og svona. Þetta var svaka törn.”

Lúxuslíf í Bandaríkjunum

Reynslunni ríkari eftir ferðalagið um Bretland komu þær aftur til Íslands. Á þeim tíma voru þær fjórar í hljómsveitinni en ein þeirra, Emilía, ákvað að snúa sér að öðru. Þær Klara, Steinunn Camilla og Alma vildu hins vegar halda áfram og stefndu til Bandaríkjanna. Eftir að hafa flakkað milli Bandaríkjanna og Íslands í ár ákváðu þær að flytja til Los Angeles. „Svo bara mjög fljótlega eftir það kemst tónlistin okkar upp á borð hjá umboðsmanni í Bandaríkjunum, þá var það nýja tónlistin. Hann kom okkur inn á borð hjá risaplötufyrirtækjum, okkur bauðst samningur hjá Hollywood Records,” segir Klara. ,„Þá er tekin ákvörðun um að skipta um nafn og þá breytum við nafninu í The Charlies og gerum plötu með flottustu tónlistarmönnunum á þeim tíma, alveg geggjaða plötu. Sem síðan reyndar aldrei kom út, því miður,” segir Klara.

Stungið ofan í skúffu

Plötufyrirtækið ætlaði sér stóra hluti með þær og komið var fram við þær eins og stórstjörnur. Þær fóru í flottustu hljóðverin þar sem voru jafnvel einkakokkar að elda ofan í þær ásamt því sem stórt teymi hélt utan um þær og sá um allt skipulag, förðun, búninga og allt sem þær vanhagaði um. 
Þegar platan var tilbúin ákvað plötufyrirtækið hins vegar að einbeita sér frekar að öðrum listamönnum sem voru á samningi hjá þeim og geyma tónlistina þeirra ofan í skúffu, eins og það er kallað. 
„Sá samningur fór sem fór, eins og margir artistar í þessum heimi, ferðu í gegnum alls konar hindranir. Við vorum einar af þeim sem voru sett í skúffu. Plötufyrirtækið lagði áherslu á aðila sem þénuðu meira fyrir það. Við vorum að keppa við Selenu Gomes, Demi Lovato og Jonas Brothers,” segir Steinunn Camilla. Þær tóku meðal annars upp tvö lög á plötunni með tónlistarmanninum Bruno Mars. 

Þær segja að það hafi auðvitað verið hundfúlt að settar til hliðar eftir alla þessa vinnu og með tilbúna plötu sem þær höfðu mikla trú á. Platan kom aldrei út. Þær máttu ekki gefa hana út sjálfar og máttu í raun lítið sem ekkert gera fyrst um sinn eftir að plötufyrirtækið ákvað þetta. Þær voru líka bundnar samningi við annan umboðsmann. Þarna segja þær að það hafi líklega verið auðveld ákvörðun að gefast upp og fara aftur til Íslands. En þær voru alls ekki tilbúnar til að setja drauminn á hilluna.

Gáfust ekki upp

„Allt í einu stóðum við bara eftir, samningslausar, með enga plötu, ekkert teymi. Ég man við fórum til Íslands þau jól og komum til baka í janúar. Við sátum inni í stofu heima og ég svona, hvað eigum við að gera?” segir Steinunn Camilla. Á þessum tíma bjuggu þær þrjár saman í pínulítilli eins herbergis íbúð þar sem þær sváfu í þremur litlum rúmum hlið við hlið. 
„Það var bara tekin upp símabókin og höstlið í okkur byrjaði. Við ætlum að finna okkur umboðsmann. Við settum tússtöflu á ísskápinn hjá okkur, bókuðum fundi með öllum sem við höfðum kynnst. Við sátum á kaffihúsi frá tíu á morgnana til fjögur. Vorum í raðviðtölum að hitta fólk. Við vorum bara: við ætlum ekki að hætta. Ég er ógeðslega stolt af okkur þegar ég hugsa til baka, það hefði verið svo ógeðslega auðvelt að bara fríka út, nei ég er hætt, farin heim,” segir Steinunn Camilla.  
„Við neitum bara að hætta, við erum bara þannig manneskjur, við hættum ekki. Þið losnið ekki við okkur,” segir Klara hlæjandi en við tók tími sem þær hugsa til með hlýju. Þá tóku þær upp plötu með strákunum í StopWaitGo í lítilli kjallaraíbúð fjarri öllum lúxusnum sem þær höfðu vanist þegar þær voru með samning hjá plötufyrirtækinu. 

Næstu árin voru þær í Bandaríkjunum og unnu við ýmis verkefni tengd tónlistinni. Síðustu ár hefur Klara starfað sem lagahöfundur fyrir aðra en Steinunn Camilla flutti heim fyrir fjórum árum og rekur nú umboðsskrifstofu fyrir tónlistarmenn. Hún er umboðsmaður fyrir marga þekkta tónlistarmenn á Íslandi og nú hefur Klara bæst í þann hóp þar sem hún ákvað á síðasta ári einnig að flytja heim og byrja að semja aftur tónlist sem hún syngur sjálf, nokkuð sem hún hafði ekki gert í nokkur ár. 

Viktoría Hermannsdóttir ræddi við Klöru Elíasdóttur og Steinunni Camillu Sigurðardóttur í Gestaboði á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Sumir æskuvinanna hafa lent í fangelsi

Mannlíf

Var útskúfað í æsku