Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir aldrei leitað til foreldra um lausnir eða samráð

Fossvogsskóli
 Mynd: Fréttir
Aðgerðir vegna þess sem kallað er óeðlilegur vöxtur á nokkrum stöðum hefjast í Fossvogsskóla á næstu dögum er ætlað að taka stuttan tíma. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og skólaráði Fossvogsskóla í kjölfar fundar 17. febrúar 2021. Faðir nemanda við skólann segir forelda hunsaða í málinu.

Björn Steinbekk, foreldri drengs sem hefur veikst illa við dvöl sína Fossvogsskóla, segir aldrei hafa leitað til foreldra um lausnir eða samráð við framkvæmdir.

„Þegar framkvæmdir voru kláraðar var í raun komin stimpill um að allt væri í lagi því það væri búið að eyða 500-600 milljónum króna, “ segir Björn sem sendi öllum borgarfulltrúum bréf þar sem hann lýsir þeim einkennum sem sonur hans finnur fyrir.

Hann hósti, sé þreyttur, með útbrot á fótum, höndum og hálsi sem hann klæi undan dag eftir dag. Einkennin hverfi þegar frí er í skólanum. Systir hans hafi fundið sömu einkenni meðan hún var við nám í skólanum og móðir hans vegna myglu á vinnustað fyrir nokkrum árum.

Björn hefur sent fréttastofu nokkur svarbréf frá borgarfulltrúum og embættismönnum sem segjast hafa skilning á málinu og rekja iðulega þær framkvæmdir sem farið hefur verið í.

Björn segir börnin smánuð með framkomu borgarinnar í þeirra garð og rifjar upp að Kársnesskóli í Kópavogi hafi verið rifinn vegna myglu. Hann segist hafa heyrt í starfsmönnum skólans sem hafi lýst svipuðum einkennum og börnin.

Greinargerð Verkís væntanleg á næstu dögum 

Í yfirlýsingunni segir að sýni sem tekin voru úr loftsíum og rýmum ofan millilofta einnar álmu í skólanum sumarið 2020 voru send í ræktun og í tegundagreiningu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Verkfræðistofan Verkís hefur tekið saman greinargerð um niðurstöðurnar sem birt verður á næstu dögum.

Að loknum framkvæmdum verði ráðist í ítarlega hreingerningu þar sem þurfa þyki, segir í yfirlýsingu skóla- og frístundaráðs. Sýni verði tekin í lok skólaárs til að ganga úr skugga um að framkvæmdirnar hafi skilað árangri.

Fossvogsskóla og skóla- og frístundasviði er ætlað að fylgjast reglulega með líðan þeirra barna sem áhyggjur eru af. Í yfirlýsingunni segir margvíslegar endurbætur hafi verið gerðar við skólann undanfarin tvö ár.

Þök og loft hafi verið endurnýjuð, eins loftræstikerfi og gólfefni auk þess sem veggir hafi verð málaðir. Björn Steinbekk segir sex skóla í borginni í ólagi vegna myglu. 

„Vandamálið er að það kostar fimm miljarða að byggja nýja skóla og sex skólar í Reykjavík eru í ólagi, viðhaldi hefur verið ábótavant eftir hrun og nú verið að bíta úr nálinni með það,“ segir Björn.