„Þetta er ekki lýsing á einhverjum skíthæl“

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

„Þetta er ekki lýsing á einhverjum skíthæl“

17.02.2021 - 07:00

Höfundar

Einar Kárason, rithöfundur, segir að ef hann hefði hefði fengið á tilfinninguna að Jón Ásgeir Jóhannesson væri slægur maður og grályndur þá hefði það komið fram í nýrri bók hans um kaupsýslumanninn.

Einar Kárason, sem sendi nýlega frá sér bókina Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, segir að hann hafi lengi beðið eftir að rétti vinkillinn á efnahagshrunið 2008 myndi sýna sig svo hann gæti skrifað um það. „Mig hefur alltaf langað að finna einhvern flöt á því til að skoða þetta, hvað var í gangi í aðdragandum og hvað gerðist þarna.“ 

Þegar stungið var upp á því að hann kynnti sér sögu Jóns Ásgeirs þótti honum það í fyrstu fráleit hugmynd. „Ég bar þetta samt undir Forlagið og þau sýndu strax mikinn áhuga og töldu að þetta gæti orðið árangursríkt. Svo hitti ég Jón sjálfan sem ég hafði aldrei hitt áður, og fékk strax á tilfinninguna að það væri meiri saga og merkilegri.“

Það hitti einnig á að á þeim tímapunkti hafði Einar verið með nokkrar bækur á teikniborðinu, hamfarasögur byggðar á sögulegum atburðum í anda bókarinnar Stormfuglar sem hann gaf út 2018, en hann hefði dottið út af starfslaunum í tvö ár. „Þá fer maður að leita á önnur mið í annars konar verkefni. Þarna buðust fyrirframgreiðslur og svo framvegis, svoleiðis að maður ætti fyrir reikningum sem jafnast síðan út í sölu sem er öll að taka við sér.“

Mynd með færslu

Það eru fyrst og fremst persónur og stórir atburðir sem draga Einar að verkefnum og þegar hann kynnti sér sögu Jóns Ásgeirs sá hann að hann hefði úr einhverju að moða.

„Ég fékk það á tilfinninguna að þetta væri heilsteyptur náungi. Ég fann strax að hann var frekar tortrygginn á mig, kannski eðlilega eftir allt, það hefur svo margt verið skrifað um hann og sagt. Svo hitti ég þann stórmerkilega mann, lögfræðinginn Gest Jónsson, sem var sem sagt hans málafærslumaður í öllum þessum stórkostlegu málaferlum sem hann fór í gegnum og þá styrktist ég frekar í því að þarna væri mikil og merkileg saga sem ekki var sögð.“

Einar byrjaði að skrifa bókina um það leyti sem áratugur var liðinn frá hruninu, í september 2018. „Ég fann að það væri kominn rétti tíminn til að skoða þetta upp á nýtt,“ segir hann í samtali við Þröst Helgason í Svona er þetta á Rás 1.

Átölur um vanþekkingu og skort á gagnrýni

Bókin hefur vakið mikið umtal og Einar hefur verið gagnrýndur fyrir að fara með silkihönskum um Jón Ásgeir. Í grein eftir ritstjóra Kjarnans, Þórð Snæ Júlíusson, er hún sögð skrifuð af vanþekkingu á viðskiptum og hún sé ógagnrýnin á viðfangsefnið.

„Þetta er kannski ekki fyrst og fremst bók um viðskipti,“ segir Einar um viðtökurnar. „Eins og ég sagði einhvers staðar annars staðar, segjum ef ég mundi skrifa bók um skákmann, Bobby Fisher eða Kasparov, eða fótboltamann, Maradonna eða Hemma Gunn, þá væri ég ekki að skrifa skákbók eða fótboltabók. Það vildi bara svo til að karakterarnir sem ganga í gegnum stórbrotin örlög eru á þessum stað.“

Einar undirstrikar að sagan sé hvorki blaðamennska né sagnfræði. „Þarna kem ég að einhverju sem ég þekkti ekki. Það svona lýkst upp fyrir mér, myndin, hún kemur í brotum. Ég tala við þennan mann, ég les þessa grein, ég les þessa bók, er svo bent á aðra bók. Það hafa náttúrulega margar bækur verið skrifaðar um hrunið eða eitthvað í kringum það, endurminningar manna, bæði stjórnmálamanna og blaðamanna. Eftir því sem þetta féll saman, þetta er skrifað í brotum, Baugsmálið er með sinn kafla, útrásin til Bretlands er sérstakur kafli, fjölmiðlarekstur og fjölmiðlafrumvarpið, bolludagsmálið. En það sem er svo skemmtilegt er að þessi brot féllu saman eins og þetta hafi verið sagað út fyrir púsluspil. Þetta féll allt saman í heildarmynd sem gekk upp.“

Hvað varðar átölur um að sjónarhornið sé ekki nógu gagnrýnið á söguhetjuna og dregin sé upp full þekkileg mynd af Jóni Ásgeiri segir Einar að bókin sé byggð á viðtölum við 40-50 manns og í þeim hafi lýsingar á Jóni Ásgeiri allar verið á sömu leið. „Þetta er bara sá karakter sem menn drógu upp. Ef ég hefði fengið á tilfinninguna að hann væri slægur maður og grályndur þá hefði ég látið það koma fram. En það var ekkert í okkar samskiptum eða í því sem ég kynnti mér og las sem benti til þess.“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur einnig gagnrýnt bókina og var hún birt í Morgunblaðinu. Hannes líkir henni við helgisögu Jóns biskups Ögmundssonar sem skráð var í því skyni að fá biskupinn tekinn í heilagra manna tölu og hins vegar líkir hann henni við píslarsögu Jóns þumlungs þar sem hinn vestfirski klerkur lýsir göldrum gegn sér, og hann segir galdrakindurnar í bók Einars birtast í Davíð Oddssyni. Einar tekur undir það að líkingar Hannesar séu skemmtilegar en samanburðurinn afhjúpi ekki hlið á bókinni sem honum þyki óviðeigandi.

„Jón hefur verið mjög úthrópaður svo ekki sé meira sagt. Sumt fólk sem ég talaði við sagði að það hefði þótt mikill ljóður á mannorði að hafa verið í tengslum við hann, bæði menn sem voru í viðskiptum og persónulegir vinir. Fyrstu árin eftir hrun þorðu þeir jafnvel ekki að segja frá því. Útrásarvíkingarnir flestir komu sér í burtu frá landinu og létu talsmönnum að svara fyrir sig. Jón hefur meira eða minna verið hérna heima en lítið þorað að láta sjá sig til dæmis á opinberum stöðum því það kom alltaf einhver og hellti sig yfir hann. Það var búið að draga upp einhverja mynd af svona varasömum manni. Ég hef heyrt í mjög mörgum [sem hafa lesið bókina] og hafa sagt það hafa komið sér á óvart að þetta virðist vera ágætis náungi. En ég hefði ekki farið að draga upp þá mynd af honum nema að ég fékk það á tilfinninguna að það væri þannig. Að því leyti er þetta helgisaga því þetta er ekki lýsing á einhverjum skíthæl.“

„Það væri skrýtinn höfundur sem hefði ekki áhuga á svona sögu“

Einar hefur áður skráð sögu umdeilds og umsvifamikils athafnamanns á Íslandi og gefið út á bók, það er Jónsbók um Jón Ólafsson. Hann segir sögur mannanna um margt líkar. Báðir séu utangarðsmenn sem komu á sviðið og ollu titringi í viðskipta- og stjórnmálalífi landsins.

„Ég til dæmis kynntist í því þegar ég gerði þá bók, um Jón [Ólafsson], þetta var gömul samanlæst klíka sem réði íslensku efnahagslífi meira og minna. Í kringum stærstu fyrirtækin, sumir kalla þetta kolkrabbafyrirtækin, í gegnum bankana og tryggingafélögin. Svo var þetta nátengt pólitíska valdinu. Sjálfstæðisflokkurinn, valdamesti flokkurinn, maður veit það að hann var hinn pólitíski armur þessa viðskiptaveldis. Stórmerkilegur maður, Hörður Sigurgestsson, sem var kannski alveg í miðjunni á þessu, hann var forstjóri Eimskipafélagsins og stjórnarmaður Flugleiða, hann sagði í tveggja manna spjalli við mig að menn gátu alveg þolað það að Jón Ólafsson væri einhvers staðar í bisniss. Það væri allt í lagi að hann væri að gefa út plötur og jafnvel reka útvarpsstöð. En þegar hann fer að færa sig upp á skaftið og jafnvel kaupa banka og ætla að gína yfir öllu þá segja menn bara að þetta verði að stoppa.“

Einar segir söguna hafa endurtekið sig þegar Jón Ásgeir og faðir hans hófu að breiða úr sér út fyrir verslanarekstur. „Þeir byrja á því að opna einhverja lágvöruverslun og það hefur enginn áhyggjur af því. En þegar þeir fara að vaxa upp í það að vera viðskiptaveldi sem ógnar öllu því sem fyrir er, meðal annars heildsala- og stórkaupmannabatteríinu sem hafði alltaf verið mjög nátengt forystu Sjálfstæðisflokksins. Þeir fara líka að eignast banka og gína yfir öllu, að mönnum finnst, að þá kemur upp krafa til pólitísku forystunnar að þetta verði stoppað. Ég hef margar heimildir um það, sem enginn hefur mótmælt og virðulegir menn borið vitni um, að það var verið að hringja úr Stjórnarráðinu í bankastjóra ríkisbankanna og segja að þú átt mig á fæti ef þú veitir þessum manni lán. Þannig stoppa sumar af hans viðskiptaáætlunum, til dæmis þegar hann byrjar að hasla sér völl á Bretlandi. Það er þessi saga. Það merkilega við það er að það tekst ekki að stoppa hann. Það þurfti þessa alþjóðlegu bankakreppu og hreinlega það sem við köllum þetta mikla hrun sem varð. Þegar hann loksins fór niður fór allt annað með. Það væri skrýtinn höfundur sem hefði ekki áhuga á svona sögu.“

Einar segir að hann hafi fengið nýja sýn á þá miklu umrótatíma sem hrunsárin voru við ritun bókarinnar en hvort einhvern stærri lærdóm megi draga af henni, fyrir lesendur, samfélagið eða umræðuna á Íslandi, verði tíminn að leiða í ljós.

Tengdar fréttir

Innlent

Segir Davíð Oddsson hafa fengið Jón Ásgeir á heilann

Stjórnmál

„Kom þarna dálítið mikill go go-tími“

Stjórnmál

„Geggjuð og skrýtin saga“

Bókmenntir

Varnarræða siðblindingja