
Bjarkey tekur annað sætið í Norðausturkjördæmi
„Ég neita því ekki að niðurstaða forvalsins var sannarlega óvænt. Um leið og ég þakka öllum þeim sem studdu mig til forystu vil ég tilkynna að ég hyggst taka annað sætið á listanum,“ segir Bjarkey í færslu á Facebook.
„Ég óska Óla Halldórssyni til hamingju með fyrsta sætið og öllum hinum sem hlutu kosningu og hlakka til að vinna með þeim og öllum okkar góðu félögum í Norðausturkjördæmi. Fram undan eru mikilvægar kosningar og ég mun leggja allan minn kraft í að Vinstri græn hljóti góða kosningu. Við getum óhrædd lagt okkar góðu verk fyrir kjósendur í haust,“ segir Bjarkey.
Rafrænt forval VG fór fram 13.-15. febrúar. Þar var valið í fimm efstu sæti á framboðslista flokksins í alþingiskosningunum sem fram fara í haust. Tólf voru í framboði.
1. Óli Halldórsson með 304 atkvæði í 1. sæti
2. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir með 293 atkvæði í 1.-2. sæti
3. Jódís Skúladóttir með 297 atkvæði í 1.-3. sæti
4. Kári Gautason með 337 atkvæði í 1.-4. sæti
5. Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir með 322 atkvæði í 1.-5. sæti