Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Útgöngubann í Hollandi dæmt ólöglegt

16.02.2021 - 16:43
epa08969966 Police arrest a preson in Rotterdam South, the Netherlands, 27 January 2021. The police are massively present in the city after the riots on 25 January and check people walking in groups on the street. Nationwide protest against coronavirus restrictions and curfew imposed by Dutch government broke out in many Dutch cities, leading to some violent riots and clashes with Police.  EPA-EFE/ANP
Mikið hefur verið um mótmæli í Hollandi frá því að útgöngubanni var lýst yfir. Mynd: EPA-EFE - ANP
Dómstóll í Hollandi skipaði stjórnvöldum í dag að aflétta þegar í stað útgöngubanni, sem komið var á til að stöðva útbreiðslu COVID-19 farsóttarinnar. Dóminum verður áfrýjað. Landsmenn eru áfram hvattir til að halda sig heima um kvöld og nætur. 

Hollensk samtök, Viruswaarheid, eða Sannleikurinn um veiruna, kærðu útgöngubannið sem sett var á 23. janúar og var framlengt í síðustu viku til 2. mars að minnsta kosti. Samkvæmt því var landsmönnum bannað að vera utan dyra milli níu á kvöldin og hálf fimm að nóttu.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að útgöngubannið brjóti gegn rétti landsmanna til einkalífs og ferðafrelsis. Til svo róttækra ráðstafana eigi ekki að grípa nema í neyðartilvikum, til dæmis þegar flóðgarðar væru að gefa sig.

Stjórnvöld ætla að áfrýja dóminum. Þá hvatti Mark Rutte forsætisráðherra landsmenn til að halda sig heima á kvöldin og nóttunni. Útgöngubannið hefði skilað áþreifanlegum árangri. Veirusmitum hefði fækkað um tíu af hundraði frá því að banninu var komið á. Ferd Grapperhaus dómsmálaráðherra gerir ráð fyrir að lagafrumvarp um útgöngubann verði lagt fram eins fljótt og auðið er. 

Útgöngubanni hafði ekki verið lýst yfir í Hollandi síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Það mætti harðri andstöðu meðal landsmanna og leiddi til verstu óeirða í landinu í áratugi.