Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skúraleiðingar á Austfjörðum í dag eftir úrhellisregn

15.02.2021 - 06:43
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Mikið hefur rignt á Suðausturlandi og Austfjörðum síðasta sólarhringinn. Á Suðausturlandi mældist mesta úrkoman á Kvískerjum, eða rétt rúmir 100 millímetrar síðasta sólarhring í sjálfvirkan úrkomumæli.

Á Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri var einnig drjúg rigning, eða um 47 millímetrar á hvorum stað. Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að hætt sé að rigna á Suðausturlandi, en búast megi við skúradembum þar í dag.

Þar segir einnig að á Austfjörðum hafi rignt enn meira en á Suðausturlandi. mest úrkoma mældist 133 millímetrar síðasta sólarhring á sjálfvirkum úrkomumæli í Bakkagerði á Borgarfirði Eystra.

Á Eskifirði og Neskaupstað mældist álíka mikil rigning, eða um 110 millímetrar á hvorum stað. Á Fáskrúðsfirði hafa síðan mælst 100 millímetrar síðasta sólarhring.

Á Seyðisfirði mældist úrkoma 66 millímetrar á mælistöðinni inni í bænum, en til samanburðar má geta þess að í rigningunum miklu í desember mældust þar mest 163 millímetrar á einum sólarhring.

Að mestu hefur stytt upp á Austfjörðum, en búast má við skúrum þar í dag, þá einkum á sunnanverðum fjörðunum í sunnanáttinni. Á landinu í dag, er heilt yfir útlit fyrir sunnan kalda eða strekking með rigningarskúrum. 

Þurrt verður og léttir til norðan- og norðaustanlands og hiti á bilinu tvö til sjö stig. Á morgun er að sögn veðurfræðings gert ráð fyrir austlægri átt með rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum, þó í mun minna mæli en verið hefur síðasta sólarhring.

Á vestan- og norðanverðu landinu verður þurrt að kalla fram undir kvöld á morgun.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV