Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ósáttir frumbyggjar stöðva framkvæmdir

10.02.2021 - 05:40
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Hópur kanadískra frumbyggja lætur frosthörkur ekki á sig fá í tilraun sinni til að koma í veg fyrir aukna mannvirkjagerð vegna járnnámu nyrst í Kanada. Sjö veiðimenn hafa sett upp tálma með snjósleðum, og loka þannig flugvelli og þjónustuvegi að námunni við Mary River. Síðustu daga hefur frostið farið allt niður í 30 gráður að sögn Guardian. 

Til stendur að leggja lestarteina frá námunni að bryggju nærri þropinu Pond Inlet. Veiðimennirnir taka það ekki í mál, því þeir óttast að það gæti ógnað stofnum hreindýra og náhvala, tveggja helstu fæðugjafa samfélagsins. Námufyrirtækið segir teinana nauðsynlega til þess að hægt sé að flytja tólf milljónir tonna járngrýtis á markað.

Guardian hefur eftir Jerry Natanine, bæjarstjóra Clyde River, að mótmælin beinist ekki gegn starfsemi námunnar sem slíkrar. Bróðir hans og frændur vinna í námunni og hann vilji ekki að þeir missi störf sín. Hann segir bæjaryfirvöld hafa komið með hugmyndir að öðrum leiðum fyrir lestarteinana, en fyrirtækið láti það sem vind um eyru þjóta. 

Um 700 námuverkamenn eru innilokaðir við námuna í Mary River. Að sögn námufyrirtækisins er ekki hægt að koma mat til þeirra þar sem flugvöllurinn er lokaður. Fyrirtækið segir viðræður við mótmælendur um að færa sig svo hægt sé að koma vistum til verkamanna engu hafa skilað.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV