Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umfang rannsóknar „gæti orðið gríðarlega mikið“

07.02.2021 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Umfang rannsóknar á vistheimilinu Arnarholti og öðrum sambærilegum heimilum gæti orðið gríðarlega mikið. Þetta segir í greinargerð forsætisráðuneytisins sem afhent var velferðarnefnd Alþingis í vikunni. Forsætisráðuneytið tekur ekki afstöðu til þess, hvort skipa skuli rannsóknarnefnd á vegum Alþingis eða stjórnsýslunefnd á vegum forsætisráðuneytis, til þess að rannsaka aðbúnað í Arnarholti og á öðrum sambærilegum vistheimilum.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Greint var frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum í fréttum í nóvember.

Í kjölfar þeirrar umfjöllunar samþykkti borgarstjórn tillögu um að ráðast í heildstæða athugun á starfsemi Arnarholts. Þá óskaði velferðarnefnd Alþingis eftir greinargerð frá forsætisráðuneytinu, þar sem farið yrði yfir hvernig hliðstæðar rannsóknir hafi farið fram, hvaða leiðir séu heppilegastar og hvert umfang rannsóknar kunni að verða.

Forsætisráðuneytið skilaði velferðarnefnd greinargerðinni í vikunni. Þar segir meðal annars að fyrirliggjandi heimildir til rannsóknar og upplýsingaöflunar, séu mjög ítarlegar í lögum um rannsóknarnefndir. Forsætisráðuneytið telji ljóst að heimildir laganna séu fullnægjandi til að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar séu til að möguleg rannsókn leiði fram staðreyndir málsins. Hvort sem skipuð verði stjórnsýslunefnd á vegum forsætisráðuneytisins eða rannsóknarnefnd á vegum Alþingis, þurfi að skipa nefnd sérfræðinga, auk þess að ráða hæft starfsfólk til verkefnisins.

Byrjað á fræðilegri úttekt

Þá segir að ljóst sé að umfang rannsóknar af því tagi sem hér er fjallað um, gæti orðið gríðarlega mikið. Því sé nauðsynlegt að afmarka vel í upphafi markmið með rannsókninni, meðal annars til hvaða stofnana hún nái, til hve margra ára aftur í tímann skuli fara og hvaða þáttum í starfseminni sé rétt að beina athyglinni að. Því er í greinargerðinni dreginn fram sá valkostur að í stað þess að ráðist sé í eiginlega rannsókn á fyrsta stigi, verði byrjað á því að gera fræðilega úttekt á starfsemi slíkra stofnana. Að lokinni slíkri úttekt yrði tekin afstaða til þess hvort, á hvaða lagagrundvelli og hversu langt aftur í tímann rannsókn skuli gerð, og hvort skipa skuli rannsóknarnefnd á vegum Alþingis eða stjórnsýslunefnd á vegum forsætisráðuneytis. Ráðuneytið taki ekki afstöðu til þess hvaða leið skuli farin.