Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stofnun innlendrar mannréttindastofnunar enn í bígerð

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar í gærmorgun að skipa starfshóp sem hefði það hlutverk að útfæra hugmyndir og vinna við frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun. Hugmyndir þess efnis eiga sér nokkurn aðdraganda.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Starfshópnum, sem gert er ráð fyrir að verði undir formennsku fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, er ætlað að leggja til hvaða verkefni gætu færst til nýrrar stofnunar frá öðrum stofnunum ásamt tilfærslu á starfsfólki og fjármagni.

Stofnuninni er ætlað að uppfylla viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir, svokölluð Parísarviðmið frá 1991. Þau gera kröfu um sérstaka stofnun sem komið er á með lögum og því uppfyllir núverandi Mannréttindaskrifstofa ekki viðmiðin.

Hún hefur þó að nokkru gegnt hlutverki innlendrar mannréttindastofnunar frá stofnun 1994. Á vef Stjórnarráðsins segir að tilvist slíkrar stofnunar sé nauðsynleg til þess að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda og sé forsenda þess að mögulegt sé að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Drög að frumvarpi árið 2019

Drög að frumvarpi um stofnun innlendrar mannréttindaskrifstofu voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í mars 2019. Því frumvarpi var ætlað að byggja á eldra frumvarpi innanríkisráðherra frá 2016.

Íslenska ríkið fékk fjölmörg tilmæli um að koma innlendri mannréttindaskrifstofu á fót í tengslum við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi það ár.

Á samráðsgáttinni árið 2019 kom meðal annars fram almenningur ætti að geta leitað til stofnunarinnar sem skyldi aðstoða við athugun og könnun á einstökum málum, eftir atvikum.

Umboð stofnunarinnar til að vinna að eflingu og vernd skal vera víðtækt og stjórn hennar endurspegli borgaralegt samfélag. Jafnframt skal sjálfstæði stofnunarinnar vera tryggt.

Frumvarpinu fagnað

Landssamtökin Þroskahjálp, Kvenréttindafélag Íslands og Mannréttindaskrifstofa Íslands fögnuðu áformunum, að tímabært væri að slík stofnun yrði að veruleika og áríðandi að hún væri fjárhagslega sjálfstæð.

Á vef Stjórnarráðsins segir að gildandi fjármálaáætlun gerir ekki ráð fyrir fjármagni til stofnunarinnar og því þurfi að leita leiða til þess koma stofnuninni á fót og tryggja framtíðarrekstur hennar innan heildarútgjaldaramma ríkissjóðs.

Í umsögn Þroskahjálpar frá 2019 segir að mjög mikilvægt væri að tryggja að fatlað fólk njóti mannréttinda „þar sem á skortir að fullnægjandi eftirlit sé með að fatlað fólk á Íslandi fá þau réttindi og þjónustu sem það á lagalegan rétt á.“

Iðulega væru það réttindi í skilningi laga og fjölþjóðlegra mannréttindasamninga.