Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Væsir ekki um ungana í Hreiðri Alþingis

05.02.2021 - 19:44
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Hreiðrið, aðstaða fyrir nýbakaða foreldra sem sinna þingstörfum, var tekið í notkun á dögunum. Þingmenn segja það breyta heilmiklu í starfi sem krefst mikillar viðveru og óreglulegs vinnutíma.

„Ég hafði nú fyrirfram ekki talið að það væri neitt pláss í þinghúsinu nema bara uppi á lofti, en svo heppilega vildi til að það var hérna herbergi á fyrstu hæðinni sem nú hefur nafnið Hreiðrið þar sem við útbjuggum aðstöðu, og við erum mjög ánægð með það að geta uppfyllt þessar óskir,“ segir Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis.

Í Hreiðrinu er hægt að skipta á ungbörnum, gefa brjóst og sinna þörfum ungviðisins. Þó átökin geti verið hörð á þinginu á allt að vera með ró og spekt í Hreiðrinu. 

„Þetta er alveg yndislegt útaf því að það var svolítið erfitt að sjá fyrir sér hvernig þetta átti allt eftir að ganga. Ég kem aftur til vinnu 20 mars, þá verður hann orðinn 4 mánaða. Það skiptir máli að geta tekið hann með og haft hann hjá mér því mig langar að halda áfram að gefa honum brjóst. Þó að pabbi hans verði í fæðingarorlofi þá verður hann örugglega mikið hérna niður frá get ég ímyndað mér,“ segir Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og nýbökuð móðir. 

Störf þingsins eru tímafrek og ófyrirséð, og fundir geta dregist á langinn. 

„Þetta finnst mér frábært framtak af þinginu sem aðrir vinnustaðir mættu taka til fyrirmyndar til að auðvelda foreldrum að vera með lítil börn, sérstaklega mæðrum sem ætla að gefa brjóst lengur en þær geta verið í fæðingarorlofi,“ 

Það er ekki á hverri vöggustofu sem maður getur fylgst með störfum þingsins, en það getur maður hér.

Já við fáum lítinn skjá til að fylgjast með og við erum einmitt beint undir þingsalnum þannig að það er ekki mjög langt fyrir okkur að fara,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og verðandi móðir.

Þó svo að stutt sé í ræðustólinn er þó ekki hægt að greiða atkvæði úr hreiðrinu.

„Mögulega væri hægt að leiða það hérna niður. Það væri ekkert verra,“ 

Gefa brjóst og greiða atkvæði?

Það er búið að halda ræðu og gefa brjóst. Sá múr er fallinn, svo af hverju ekki þessi?“ spyr Þórhildur Sunna að lokum og vísar þar til þess þegar Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins flutti ræðu í ræðustól Alþingis árið 2016 með barn sitt á brjósti.