Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, er á góðum batavegi eftir að hafa veikst af COVID-19 í síðasta mánuði. Forsetinn birti í gær myndskeið á samfélagsmiðlum, þar sem hann ávarpar landa sína og segist „vera við góða heilsu og á batavegi.“
Obrador greindi frá því 24. janúar að hann hefði greinst með COVID-19. hann hefur verið í einangrun í forsetahöllinni síðan og gegnt embættisskyldum sínum þaðan að því marki sem það er hægt, en innanríkisráðherrann verið fulltrúi hans þar sem þess er þörf.
Forsetinn, sem er 67 ára gamall, fékk alvarlegt hjartaáfall árið 2013. Í ávarpi sínu í gær sagði hann mótefnamælingu fyrr um daginn hafa skilað neikvæðri niðurstöðu, en fór ekki nánar út í líðan sína eða heilsufar.