Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Æfing er lykill að velgengni í rafíþróttum

Mynd: RÚV / RÚV

Æfing er lykill að velgengni í rafíþróttum

05.02.2021 - 16:03
„Mér finnst mikilvægt að hafa rafíþróttamót fyrir unglinga sérstaklega núna á tímum COVID,” segir Donna Cruz, tölvuleikjaspilari sem hefur spilað tölvuleiki frá þrettán ára aldri. Rafíþróttamót Samféls hefst í dag og þá munu tölvuleikjaspilarar fá tækifæri til að leika listir sínar.

Atli Hrafn Ólafsson, fimmtán ára tölvuleikjaspilari, segir tölvuleikjamenningu ungs fólks vera til staðar en enn þá sé stór hópur unglinga sem ekki spilar. Atli er þátttakandi á Rafíþróttamóti Samfés sem hefst í dag. „Þetta eru áhugamálin mín og ég get gert það sem mér finnst gaman. Þá get ég gert það sem mér finnst gaman með vinum mínum og allir inni í sama herbergi,“ segir Atli sem mætir oftar í félagsmiðstöðina Holtið eftir að þar opnaði rafíþróttaver.

„Mér finnst mikilvægt að hafa rafíþróttamót fyrir unglinga sérstaklega núna á tímum COVID,” segir Donna Cruz, tölvuleikjaspilari. Hún hefur spilað tölvuleiki frá þrettán ára aldri. Hún hefur stimplað sig rækilega inn í tölvuleikjaheiminn á Íslandi. Donna segir að ef fólk ætli að ná langt sem góðir tölvuleikjaspilarar sé æfing algjört lykilatriði.

Victor Berg Guðmundsson, skipleggjandi mótsins og framkvæmdastjóri Samfés, segir að nýta megi rafíþróttir til að ná til ungmenna. „Það sem er svo mikilvægt með þessu starfi, með rafíþróttastarfi er það að við erum líka að ná til ungmenna sem eru kannski ekki í íþróttum eða þau eru ekki að mæta í félagsmiðstöðina eða ungmennahúsið í annað starf.” Þátttaka hefur aukist mikið miðað við skráninguna í fyrra. Nú eru um 350 ungmenni á aldrinum 15-25 ára skráð til leiks. Hægt verður að fylgjast með mótinu í Cs:GO og á Rocket League og það byrjar kl. 17.