Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýtt kennileiti höfuðborgarinnar?

03.02.2021 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Sundabraut með brú frá Holtavegi, um Gufunes og Geldinganes upp á Kjalarnes getur verið tilbúin eftir 10 ár, samkvæmt skýrslu starfshóps Vegagerðarinnar sem samgönguráðherra kynnti í dag. Hann segir brúna létta álagi af öllu höfuðborgarsvæðinu og hún geti orðið nýtt kennileiti fyrir Reykjavík.

Sundabraut hefur verið í umræðunni áratugum saman. Menn hafa skipst á skoðunum um leið hennar, hvort hún skuli vera brú eða göng, um kostnað og margt fleira. Vegagerðin telur 30 metra hábrú nú besta kostinn. Sundabraut um brú styttir vegalengdina upp á Kjalarnes um 8 kílómetra og mun kosta 69 milljarða króna. Göng hefðu kostað 14 milljörðum meira samkvæmt skýrslunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra segir brúna opna nýja möguleika varðandi fjölbreyttari ferðamáta.

„Til dæmis fyrir hjólandi og gangandi. Þannig að það eru kannski ekki síst þessir þættir um að bæta lífsgæði fólks og að geta stutt við þessi markmið um auknar almenningssamgöngur og fjölbreyttari ferðamáta sem að gera brúna enn betri valkost og það er auðvitað enn betra að hún er líka mun ódýrari en göng.“

Hann segir framkvæmdina nauðsynlega innspýtingu í efnahagslífið í kórónuveirukreppunni. Hún skapi um 4000 störf þegar mest lætur en fjöldi afleiddra starfa og hagvöxtur um ókomna framtíð sé mikill og ótvíræður.

„Við munum auðvitað halda áfram að sjá höfuðborgina vaxa. Við held ég erum búin að læra nóg af náttúrunni og hennar hamförum síðustu ár til að gera okkur grein fyrir því að við þurfum að vera við öllu búin og einn þáttur í því er að eiga möguleika á  flóttaleiðum. Sundabrautin er stórkostleg viðbót við þá möguleika sem höfuðborgarbúar hafa í dag.“

Gert er ráð fyrir að undirbúningur, hönnun og umhverfismat taki 4-5 ár og framkvæmdin svo annan eins tíma. Sundabraut um brú gæti verið tilbúin eftir 8-10 ár.

„Hún verður nokkuð há það er að segja 30 metrar og þarf af leiðandi vel sýnileg og það kannski kallar svolítið á að hönnunin sé þá þannig að kannski gætum við verið að búa til nýtt kennileiti fyrir Reykjavík.“

 

Skýrslu starfshóps Vegagerðarinnar má nálgast hér.