Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vesturbyggð skoðar sameiningu við Tálknafjarðarhrepp

Vesturbyggð ætlar að skoða hagkvæmni þess að sameinast Tálknafjarðarhreppi. Tálknfirðingum er hins vegar ekki boðið með í það ferli.

Með boðaðri hækkun lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga þurfa mörg þeirra að sameinast til að standast lög. Þeirra á meðal er Tálknafjarðarhreppur. Óformlegar viðræður á milli hreppsins og stærri nágranna hans, Vesturbyggðar, hafa hins vegar skilað litlu. Því hefur Vesturbyggð ákveðið að skoða hagkvæmni sameiningar, án samráðs við Tálknfirðinga. 

„Bara gagnvart íbúum hér í Vesturbyggð töldum við rétt að það yrði bara kannað og við fengjum greiningu á því hvort það sé hagkvæmt að sameinast nágrönnum okkar,” segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Vesturbyggð varð til 1994 við sameiningu fjögurra sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum. Sameiningartillagan var hins vegar felld í kosningum á Tálknafirði.  

„Að mati bæjarstjórnar Vesturbyggðar hefur sú lína verið dregin hér að það sé æskilegt að við klárum þessa sameiningu sem á sér þessa löngu forsögu og að við klárum hér á sunnanverðum Vestfjörðum að verða eitt sveitarfélag.”

Ákvörðun Vesturbyggðar kemur Tálknfirðingum ekki á óvart.

„Við hefðum að sjálfsögðu viljað fá einhvers konar boð eða tilkynningu um þetta, öðruvísi en í gegnum fjölmiðla, eins og gerðist. Hins vegar kemur þetta ekkert á óvart af því að vilji fulltrúa í bæjarstjórn í Vesturbyggð hefur alveg legið fyrir,” segi Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri í Tálknafjarðarhreppi.

Tálknfirðingar vilja hins vegar líta lengra og skoða fleiri kosti. Þetta ár ætla þeir að nýta til þess. 

„Sé það niðurstaðan að það sé ekki fram hjá því komist að fara í sameiningu sveitarfélaga, að við verðum of lítil vegna ákvæða laganna sem er verið að stefna að núna, að íbúar hafi einhverja valkosti til að skoða í framhaldinu.”