Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skaðlegt að skilgreina offitu ekki sem sjúkdóm

02.02.2021 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd: GAG
Tryggvi Helgason, barnalæknir og sérfræðingur í offitu barna, segir að skilgreina þurfi offitu sem sjúkdóm á Íslandi. Hann segir mikinn mun vera á höfuðborg og landsbyggð þegar kemur að fjölda barna í ofþyngd.

Þetta kemur fram í viðtali við Tryggva í nýjasta hefti Læknablaðsins en hann hefur sent lýðheilsusviði Embættis landlæknis bréf vegna upplýsinga Þróunarmiðstöðar heilsugæslunnar sem sýna að 6,5% barna, um 3.000 börn, glíma við offitu.

Það sé þróun sem staðið hafi í fjóra áratugi og mörg ár geti tekið að snúa henni við. Tryggvi segist telja að meginástæða þess að offita sé algengari meðal barna á landsbyggð en í borginni sé vegna ólíks aðgengis að mat og afþreyingu.

Ríflega þriðjungur barna á landsbyggðinni teljast vera yfir kjörþyngd. Félagslegar aðstæður hafi sömuleiðis áhrif; „Það er heldur hærra hlutfall af háskólamenntuðum með hærri tekjur í borg hér á landi eins og annars staðar.“

Mikilvægt að greina hvað valdi offitu

Haft er eftir Tryggva að upplýsingum um offitu barna sé ekki deilt frá Lýðheilsustöð líkt og venjan sé hjá sambærilegum stofnunum erlendis. Stefnubreyting hafi orðið eftir að Lýðheilsustöð var sameinuð embætti landlæknis.

Hann segir mikilvægt sé að greina hvað verði til þess að börn og fullorðnir þyngist hraðar en nauðsyn sé, en offita sé efnaskiptasjúkdómur, 80% megi rekja til erfða. Hún sé ekki skilgreind þannig hér á landi, það sé skaðlegt en hægt sé að snúa þróuninni við sé áhugi á því.

Tryggvi bendir á að hafa verði í huga að fólk í ofþyngd geti lifað mjög heilbrigðum lífsstíl. Ekki megi fylgja því skömm að ræða ef breytingar verði á þyngdinni. 

„Ef offita er skilgreind sem sjúkdómur gefur það fólki möguleika á að leita sér aðstoðar og fá hjálp. Annaðhvort við þeim sjúkdómi eða fylgisjúkdómum sem þau eru kannski komin með,“ segir Tryggvi. Hann segir vandann liggja í þeim aðstæðum sem íslenskar fjölskyldur og börn búi við. 

Í máli Tryggva kemur fram að ekki hafi tekist að standa við fyrirætlanirnar um að vinna gegn faraldri offitu heldur hafi vandinn þvert á móti vaxið. Heilbrigðisráðherra hafi samþykkt yfirlýsingu þess efnis frá Evrópudeild WHO í nóvember 2006.

Hugarfarsbreytingar þörf

„Það gæti jafnvel þurft að minnka vinnutímann enn frekar svo fólk hafi meiri tíma til að sinna sjálfu sér og börnunum sínum,“ segir Tryggvi auk þess sem hækka mætti skatta á óhollustu og lækka verð á hollustu. Hugarfarsbreytingar sé þörf og hugsa beri um heilsuna í heild allt árið um kring.

„Við Íslendingar hlæjum að Norðmönnum fyrir að slökkva ljósin klukkan tíu á kvöldin og að þeir séu komnir upp á fjall um leið og vinnu lýkur. Það er allt annars konar lífsstíll að vera kominn heim klukkan þrjú og verja tíma með fjölskyldunni en að vera kominn klukkan sex og ætla þá að fara að elda.“

Samkvæmt upplýsingum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) eru Íslendingar nú efst á lista yfir hlutfallslegan fjölda fólks í ofþyngd en 27% tilheyra þeim hópi.