„Ríku þjóðirnar eru að sanka að sér bóluefnum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ríku þjóðirnar eru að sanka að sér bóluefnum“

02.02.2021 - 10:56

Höfundar

Sigurður Guðmundsson, fyrrum landlæknir, efast um réttmæti þess að Íslendingar og aðrar ríkari þjóðir hamstri bóluefni á meðan fátækari þjóðir bíði í örvæntingu. Hann segir mikilvægt að gæta jafnaðar og að hætta sé á að faraldurinn fari aftur á stað ef sumum löndum sé ekki sinnt.

Sigurður Guðmundsson gegndi embætti landlæknis um tíu ára skeið. Hann er gestur Sigmars Guðmundssonar í þættinum Okkar á milli í kvöld.

Hann hefur áhyggjur af þróun mála í dreifingu bóluefnis í heiminum og ekki síst græðgi ríkari þjóða sem horfi ekki á málin í stóra samhenginu. Hann efast um siðferðislegt réttmæti þess að sumir fá mikið og fljótt en aðrir þurfi að lifa í óvissu um hvort og hvenær hægt verði að bólusetja.

Fátækari lönd fá bóluefnið seint eða ekki

„Nú heyrum við það að ríku þjóðirnar eru að sanka að sér bóluefnum. Þessi umræða hfur verið mjög áberandi hér að við höfum einhvern guðsgefinn rétt á því að vera á undan öllum öðrum þjóðum. En er það alveg siðferðislega hafið yfir allan vafa að við eigum það?“ spyr hann. 

Sigurður starfaði sem læknir í Malaví og það var svo djúpstæð reynsla að hann talar síðan þá um lífshlaup sitt í tveimur hlutum, fyrir og eftir Malaví. Hann er í dag uggandi yfir stöðunni í fátækari löndum. „Maður hefur satt að segja áhyggjur af því að löndin sem ekki hafa jafn mikla fjármuni í handraðanum muni bera skarðan hlut frá borði og fá bóluefnið seint eða ekki.“

Heilmikill lærdómur í mögulegri vísindarannsókn

Honum er til efs að Íslendingar eigi rétt á að krefjast þess að fá bóluefnið örar en aðrir, þó með þeirri undantekningu að gerð væri vísindarannsókn. Mögulegar samningaviðræður við Pfizer um tilraun til að bólusetja nógu marga Íslendinga til að ná fram hjarðónæmi hafa verið í umræðu. „Vísindarannsókn er reyndar annað mál. Við getum sett upp rannsókn sem felst í því, eins og hefur verið talað um, að kanna hvort hægt sé að uppræta sjúkdóm á afmörkuðu svæði eins og Íslandi með bólusetningu. Þetta er heilmikill lærdómur fyrir heiminn,“ segir Sigurður.

„Það verður að vera ákveðinn jöfnuður í þessu“

Sé ekkert slíkt á spýtunni segir hann málið líta öðruvísi við. „Þá finnst mér ekki hafið yfir allan vafa að við eigum guðs gefinn rétt á að fá bóluefni um fram aðrar þjóðir, nei, alls ekki. Og ég held að þessum faraldri, hann verður ekki upprættur nema við upprætum hann alls staðar.“

Séu einhver svæði skilin eftir þá geti það orðið til þess að faraldurinn fari aftur af stað, segir hann. „Og það verður að vera ákveðinn jöfnuður í þessu. Ég hef áhyggjur af því að ríku þjóðirnar beiti valdi sínu gagnvart fátækari þjóðum.“

Okkar á milli er á RÚV í kvöld kl. 20. Sigmar Guðmundsson fær til sín gesti úr öllum áttum og ræðir við þá undir fjögur augu. Gestirnir eiga það sameiginlegt að hafa áhugaverða sögu að segja.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Er að spá í að fá Sigga Sigurjóns til að leysa mig af“

Tónlist

„Brennivín og dóp var lausn á vanlíðan“