Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Meta þarf áhrif aukins hreinlætis í faraldrinum á börn

02.02.2021 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Michael Clausen, barnalæknir við Landspítalann, segir að skoða verði áhrif aukins hreinlætis á börn í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Það eigi við um börn fædd 2020 og jafnvel 2021 og á við ef haldið verður áfram að spritta.

Þetta kemur fram í viðtali við Michael í nýjasta tölublaði Læknablaðsins en þarna byggir hann á svokallaðri hreinlætiskenningu.

Hún gengur út á að ef ónæmiskerfi skorti örvun fyrstu ævimánuðina myndi börn frekar ofnæmissjúkdóma. Hann segir ekki útilokað að áhrifa aukins hreinlætis í faraldrinum geti gætt.

Kókosofnæmi nemur hér land

Michael segir að foreldrar eigi ekki að vernda börn fyrir sínum eigin ofnæmisvöldum því ofnæmi erfist ekki. Hann segist jafnframt sjá æ fleiri gerðir fæðuofnæmis á Íslandi.

Til að mynda kveðst hann aldrei hafa búist við að upplifa kókosofnæmi hér en um tíma tíðkaðist að bera kókosolíu á börn með exem. Hann segir kókosolíu með kókosprótínum bjóða hættunni af ofnæmi heim og mælir því gegn notkun hennar.

Michael segir erfitt að afnæma fyrir fæðu en slíkt ofnæmi eldist þó oft af fólki. Það eigi þó síður við um ofnæmi vegna hneta og sjávarfangs en til að mynda mjólkur og sjávarfangs. Hann mælir með að fólk neyti fjölbreyttrar fæðu, neyti lítils sykurs og hreyfi sig. Það sé ein leið til að forðast ofnæmi.

Börnum gefið gras til að slá á ofnæmi 

Um 50 börn eru nú í afnæmingarmeðferð á Landspítala sem á að stuðla að því að þau losni við grasofnæmi. Haft er eftir Michael Clausen að hefja þurfi meðferðina þremur til fjórum mánuðum áður en frjókornatímabilið byrjar.

Aðferðir við afnæmingu eru yfir 100 ára gamlar en miklar framfarir hafa orðið í þeim fræðum undanfarna áratugi. Michael segir börnunum vera gefið gras í töfluformi, þar sem ofnæmisvakinn hefur verið einangraður, og að meðferðin taki strax að virka.

„Þegar best tekst til verða einstaklingarnir algjörlega einkennalausir á sumrin,“ segir Michael sem hefur verið ofnæmis- og barnalæknir á Landspítala í um tuttugu ár.