Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fjögur sveitarfélög hætta að reka hjúkrunarheimili

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Fjögur sveitarfélög hafa tilkynnt Sjúkratryggingum Íslands að þau framlengi ekki samninga um rekstur hjúkrunarheimila þegar núgildandi samningar renna út. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að nú þegar hafi verið gengið frá samkomulagi um rekstur hjúkrunarheimilisins á Höfn, en Sjúkratryggingar hafa auglýst eftir stofnunum, félögum eða fyrirtækjum til að taka yfir rekstur hjúkrunarheimila í hinum þremur sveitarfélögunum.

Rekstur fjögurra heimila í þremur sveitarfélögum hefur verið auglýstur: Hraunbúða — dvalarheimilis aldraðra í Vestmannaeyjum, Hulduhlíðar — heimilis aldraðra á Eskifirði, Uppsala — dvalarheimilis aldraðra á Fáskrúðsfirði og Öldrunarheimilis Akureyrar. Samningarnir renna út 1. apríl á þessu ári, nema samningurinn við Akureyrarbæ sem gildir til 1. maí. Í auglýsingu Sjúkratrygginga segir að æskilegt sé að „rekstraraðilar séu reknir á grundvelli fyrirkomulags um sjálfseignarstofnanir eða þar sem hagnaður er endurfjárfestur í þágu starfseminnar“.

Vitið þið af áhugasömum félögum eða fyrirtækjum sem gætu tekið yfir reksturinn?

„Já, við höfum heyrt í áhugasömum rekstraraðilum,“ segir María.  

Hafiði engar áhyggjur af því að enginn vilji taka þetta yfir?

„Það væri auðvitað alvarleg staða ef það kæmi til. En við vitum af rekstraraðilum sem hafa áhuga,“ segir hún.

Hvað er gert ef enginn finnst til að taka yfir reksturinn?

„Við erum með áætlun hvað það varðar og hvernig við bregðumst við því,“ segir hún.  

Hafa Sjúkratryggingar heimild til að semja við rekstraraðila án þess að fara í opinbert innkaupaferli, eins og hefur verið gert á Höfn?

„Já, þetta er í rauninni útvíkkun á fyrri samningi við rekstraraðila um rekstur hjúkrunarrýma. Það er verið að ganga frá því samkomulagi,“ segir hún. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV