Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Truflunin – Steinar Bragi

Mynd: - / Forlagið

Truflunin – Steinar Bragi

29.01.2021 - 16:11

Höfundar

Hvernig lýsir maður því þegar manneskja fer úr einum heimi yfir í annan, sem er alveg eins, og það er engin leið til baka? Þetta segir rithöfundurinn Steinar Bragi að hafi verið verkefni sitt þegar hann skrifaði nýjustu skáldsögu sína, Truflunina.

Truflunin eftir Steinar Braga er framtíðarskáldsaga, vísindaskáldsaga um tölvuvæðinguna með öllum framtíðarspám í krafti gagnaöflunar um hverja okkar minnstu hreyfingu og hræringu. Gervigreind, heimsyfirráð, hermennsku, hugvísindi versus raunvísindi, listina auk þess sem ástin kemur eilítið við sögu.

Truflunin er bók vikunnar á Rás 1 þennan mánuðinn. Síðasta sunnudag hvers mánaðar er á dagskrá nýr þáttur í þáttaröðinni Bók vikunnar. Aðra sunnudaga má hlusta á valda þætti raðarinnar sem þegar hafa verið á dagskrá.

Gestir þáttarins, sem fluttur verður sunnudaginn 31. febrúar, eru þau Hannes Óli Ágústsson leikari og bókmenntafræðingur og Rósa María Hjörvar bókmenntafræðingur. Umsjónarmaður er Jórunn Sigurðardóttir.

„Sköpunarsaga bókarinnar er lengri heldur en hjá nokkurri annarri sem ég hef skrifað,“ segir Steinar Bragi. „Forstigið að þessari bók var heil skáldsaga sem ég eyddi hálfu ári í að skrifa og gerðist á tungli einhvers staðar lengst úti í alheimi eftir 300.000 ár, þar sem mannkyn hafði hreiðrað um sig og jörðin orðin að einhverri goðsögn. Á þessu tungli var eitthvað að gerast varðandi langt þróaða gervigreind.“ Textinn sem Steinar náði niður á blað reyndist hins vegar steindauður og ónothæfur að mati höfundarins. „Þetta var svo lélegt og flatt að ég gat ekki einu sinni stolið einni málsgrein úr þessu til að nota síðar.“

En þarna fæddist þema Truflunarinnar. „Svo skrifaði ég næstu skáldsögu sem gerðist í miðbæ Reykjavíkur og nálgaðist þetta þema enn meira. En vandamálið er aldrei að finna þemað eða rannsaka neitt sem varðar þemað, það er að finna einhvern tón eða innri drifkraft verksins sem gerir það líka að verkum að ég hef raunverulegan áhuga á því að skrifa þetta.“

Á síðustu stundu að ná utan um bókina sjálfur

Truflunin er flókin skáldsaga sem gerist í framtíðinni, nánar tiltekið árið 2034 en fjórum árum fyrr hafði alheimurinn kvíslast í tvær víddir sem skarast á litlu svæði í Þingholtunum og miðbæ Reykjavíkur og gengur það svæði almennt undir nafninu Truflunin. Hinn venjulegi heimur, okkar raunheimur, daglegu tali kallaður Umheimur, virðist ganga áfram sinn vanagang og kannski má segja það sama um Truflunina sem í fljótu bragði virðist vera nokkurs konar afrit af okkar raunheimi. Tíminn í Trufluninni er reyndar annar, einn og hálfur tími þar jafngildur einum og hálfum mánuði í hinum svokallaða umheimi.

Aðeins þrautþjálfað vísindafólk og hermenn, svokallaðir agentar, er leyfilegt að fara um svokallaðar gáttir inn á svæði Truflunarinnar til að rannsaka eðli svæðisins, uppruna og tilgang og tekið skal fram að sá sem einu sinni fer yfir og lifir það af snýr aldrei aftur til umheimsins. Í sögunni fylgjum við félagssálfræðingnum Höllu, sem hefur samþykkt að fara yfir í Truflunina til að leita uppi agentinn F. sem er skyndilega horfin eftir að hafa sent frá sér afar torræð skilaboð.

„Ég er í sjálfu sér ekkert hissa á að margir eigi erfitt með að skilja þetta í hvelli, það var nú reyndar markmiðið að fólk skildi þetta í einum lestri,“ segir Steinar. „Það er mitt hlutverk að það sjá til þess svona nokkurn veginn að það náist. Samt fyrir sjálfan mig, þá var ég fram á síðustu stundu að ná utan um þetta sjálfur.“

Gervigreindin tekur fljótt völdin

Í bókinni kannar Steinar Bragi hvernig mennskan breytist á stafrænum tímum. „Hvenær er forspárnálgunin um hegðun okkar og mennsku farin að aktíft stýra því hver við erum frekar en að endurspegla það? Algoritmarnir taka mjög fljótlega völdin, þeir hætta að veita þér það sem þú vilt, heldur það sem þeim hentar og býr einhvers staðar djúpt í upplagi þeirra og hönnun í svörtum kassa gervigreindar sem er orðin svo flókin í dag að ekkert okkar skilur hana eða hvað fer fram milli þess að inputtið kemur og outputtið. Mennskan er á harðahlaupum og ég held að vígvöllurinn hafi aldrei verið stærri og pólaríseraðri þegar það kemur að því hver við erum í dag.“

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Utan úr heljarmyrkri framtíðarinnar

Bókmenntir

„Rosalega þéttur pakki“ frá Steinari Braga

Bókmenntir

Steinar Bragi leikur sér að lesendum