Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Falsaðir seðlar krumpaðir til að gera þá eðlilegri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við fölsuðum fimm þúsund króna seðlum í umferð. Auk þess er almenningur beðinn að vera á varðbergi gagnvart öðrum seðlastærðum svo og erlendum seðlum.

Nokkur ný mál af þessu hafa borist lögreglu á stuttum tíma en fölsunin mun ekki vera vönduð, prentunin sögð þokkaleg og búið að krumpa seðlana til að gera þá eðlilegri í útliti og viðkomu.

Lögregla segir umfang og skipulag brotanna meira en oft áður en mál af þessu tagi koma af og til upp.

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ?

Jafnframt minnir lögregla á 150. grein Almennra hegningalaga þar sem segir: „Hver,sem falsar peninga í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri, svo og hver sá, sem í sama skyni aflar sér eða öðrum falsaðra peninga, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.“

Í 153. grein sömu laga segir: „Það varðar sektum að búa til, flytja inn eða dreifa út meðal manna hlutum, sem að gerð og frágangi líkjast mjög peningum eða verðbréfum, sem ætluð eru til þess að ganga manna á milli.“

Seðlana má auðveldlega þekkja af því að á þá vantar nánast alla öryggisþætti. Þeim er helst dreift í verslunum, bensínstöðvum, sjoppum og kaffihúsum en dæmi munu vera um að falsaðir seðlar hafi verið afhentir við sölu á notuðum vörum, á borð við síma, gegnum Netið.

Lögregla bendir á að kaupa megi penna í ritfangavöruverslunum sem skrifa má með á peninga og skilja eftir sig lit sé seðillinn falsaður. Þessa penna má líka nota á erlenda seðla. Jafnframt hvetur lögregla til að kynna sér hvernig þekkja má falsaða seðla frá ófölsuðum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV