Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir kynferði ekki hafa haft áhrif á ráðninguna

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Formaður hæfnisnefndar, sem lagði mat á umsækjendur um embætti ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu, segir kynferði ekki hafa haft áhrif á ráðninguna. Hann gagnrýnir að kærunefnd jafnréttismála, sem aldrei hafi hitt umsækjendur, endurmeti mat hæfnisnefndarinnar. Menntamálaráðherra segir að ekki hafi verið ástæða til að víkja frá niðurstöðunni.

Aðalmeðferð í máli Lilju Alfreiðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur á tíunda tímanum í morgun. Lilja freistar þess að fá þeim úrskurði kærunefndar jafnréttismála hnekkt að ráðning Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins hafi verið brot á jafnréttislögum.

Einar Hugi Bjarnason, formaður hæfnisnefndarinnar, þvertók fyrir það við skýrslugjöf í morgun að kynferði Hafdísar hefði haft áhrif á ráðninguna. Páll var metinn mjög hæfur þegar kom að mati á leiðtogahæfileikum en Hafdís hæf. Sú niðurstaða var byggð á viðtölum við umsækjendur þar sem meðal annars var lagt mat á huglæga þætti. Einar sagði það ekki í samræmi við eðli ráðningaferilsins að kærunefnd, sem aldrei hittir umsækjendur, endirmeti mat hæfnisnefndar í slíkum þáttum.

Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, sem einnig sat í hæfnisnefndinni, bætti við að Páll hefði sýnt í viðtölum að hann hefði betri heildarsýn og stefnu fyrir starfið. Þá var tekist um hvort hægt væri að leggja grunnnám Páls í guðfræði til jafns við grunnnám Hafdísar í lögfræði. „Engin fræðigrein er æðri annarri til að skapa grundvöll fyrir góðan stjórnanda,“ sagði Kristín.

Menntamálaráðherra sagði í morgun að ekki hefði verið ástæða til að gera athugasemdir við störf eða niðurstöðu hæfnisnefndar. Hún benti á að hún hefði skipað að minnsta kosti ellefu hæfnisnefndir í embætti og að þessi hefði ekki verið frábrugðin öðrum. Hún hafi farið vel yfir niðurstöðu nefndarinnar, ekki séð neina annmarka og því ekki talið ástæðu til að víkja frá niðurstöðunni eða gera frekari athugasemdir.

Hafdís gagnrýndi hins vegar að vægi matsatriða hefði ekki legið fyrir í byrjun ferlisins. Þá hafi gögn frá hæfnisnefndinni borist seint og illa. Þegar þau loks bárust í lok janúar í fyrra hafi nokkur dæmi verið um að ekki var rétt eftir henni haft í viðtölunum. Gögnin hafi verið samhengislaus.

Þá fordæmdi hún að ráðherra beitti valdi sínu með þessum hætti og sagði að sér hefði þótt mjög óþægilegt að ráðherra hefði reynt að gera sig torkennilega í fjölmiðlum.