Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ómögulegt að framfylgja reglum um lokun búningsklefa

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa borist tilkynningar um að líkamsræktarstöðvar fylgi ekki reglum um að búningsklefar skuli vera lokaðir. Aðalvarðstjóri segir ómögulegt að fylgja reglunum eftir, enda séu búningsklefar gjarnan bæði fyrir gesti líkamsræktarstöðva og sundlauga. Lögreglan hefur komið því á framfæri við heilbrigðisráðuneytið að ekki sé hægt að tryggja að reglunum sé fylgt og lögreglan gerir ráð fyrir að verða með í ráðum við gerð næstu reglugerðar.

Ræddu við forsvarsmenn líkamsræktarstöðva

Lögreglu bárust tugir tilkynninga um að reglum væri ekki fylgt á líkamsræktarstöðvum eftir að slakað var á sóttvarnareglum um miðjan mánuðinn. Á föstudag hélt lögreglan fund með forsvarsmönnum stærstu líkamsræktarstöðvanna til þess að skýra reglurnar betur. Síðan þá hefur tilkynningunum fækkað mjög. Þetta segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. 

Þó standi eftir að ekki sé hægt að tryggja að reglum um að búningsklefar í líkamsræktarstöðvum séu lokaðir. „Það eru líkamsræktarstöðvar sem selja líka aðgang í sund. Þeir eiga ekki að fara í búningsklefa sem eru bara að fara í ræktina. En það er ekki hægt að fylgja þessu eftir því fólk segist ætla að fara í sund,“ segir Arnar, en það er heimilt að fara í búningsklefa fyrir og eftir sund.

Starfsmenn útskýri reglur fyrir gestum

Fréttastofu hafa borist ábendingar um að gestum í líkamsræktarstöðvum sé ekki bannað að fara í búningsklefa, jafnvel þótt þeir ætli ekki í sund. „Já, það á ekki að vera þannig. Búningsklefar eiga að vera lokaðir, en ef þú er að fara í sund, þá er það í lagi,“ segir Arnar. „Þetta eru þannig reglur sem er ekki hægt að fylgja eftir, en starfsmenn stöðvanna eiga að segja gestum þetta,“ segir Arnar.

„Í rauninni bara klúður“

Er þetta klúður? Að það séu í gildi reglur sem ekki er hægt að fylgja eftir?

„Jú, í rauninni er best að reglurnar séu skýrar þannig að það sé hægt að fylgja þeim eftir, en það hefur sennilega bara ekki verið hugsað út í þetta. Við getum ekki setið fyrir fólki og sektað það við búningsklefa,“ segir Arnar.

Er ekki vont fyrir lögregluna að sitja uppi með reglugerð sem er ómögulegt að framfylgja? Þarf ekki að breyta þessu?

„Jú, þetta er í rauninni bara klúður, það er ekki flókið. Þetta er ekki nógu skýrt en við getum ekkert gert í þessu,“ segir Arnar.

Lögreglan komi að borðinu næst

Hafiði bent heilbrigðisráðuneytinu á þetta?

„Já, ráðuneytið veit af þessu. Við funduðum um þetta á föstudaginn og við bentum á að þetta væri ekki gott. Og nú er gert ráð fyrir því að lögreglan komi að borðinu við gerð næstu reglugerðar sem verður gefin út 17. febrúar. Þau vita það í ráðuneytinu að þessu er ekki hægt að fylgja eftir,“ segir Arnar.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að ráðuneytið taki ábendingum lögreglunnar vel, um að skýra þurfi reglugerðir. Reglugerðirnar þurfi oft að vinna hratt en lögreglan búist við meira samráði við gerð næstu reglugerðar. Þannig megi fyrirbyggja að hægt sé að túlka reglurnar með ýmsum hætti og finna í þeim glufur.