
Auðkýfingur villti á sér heimildir fyrir bóluefni
Baker-hjónin þóttust starfsmenn á vegahóteli í nágrenni bæjarins, sem er við landamærin að Alaska. Svæðið er að miklu leyti búið þjóðum innfæddra, og langt í næsta sjúkrahús. Íbúar héraðsins eru því í talsverðri hættu nái veiran að breiða úr sér meðal þeirra. Bólusetning gengur hraðar þar en annars staðar í Kanada, samkvæmt gögnum fréttastofu BBC.
Málið vakti mikla reiði í Yukon-fylki og víðar í Kanada eftir að upp komst um hjónin. Vegfarendur áttuðu sig á lyginni þegar þau óskuðu eftir fari á flugvöllinn um leið og þau voru búin að fá sprautuna. Samkvæmt héraðsmiðlinum New Hamburg Independent vildi enginn bjóða þeim far, og urðu þau því að labba alla leið á flugvöllinn, þar sem einkaþotan beið þeirra.
Dæmi um áframhaldandi kúgun innfæddra
John Streicker, yfirmaður félagsmála í Yukon, segist ævareiður yfir sjálfselsku Baker-hjónanna. Yfirvöldum hafi ekki dottið í hug að nokkur myndi ganga svona langt í blekkingum til þess að fá bóluefni. Angela Demit, foringi White River þjóðarinnar, skrifaði á Facebooksíðu sína að þjóðin harmi hegðun einstaklinga sem stefni öldruðum og viðkvæmum í hættu í algjörri eigingirni. Janet Vander Meer, stjórnandi viðbragðsteymis White River þjóðarinnar við kórónuveirunni, segir þetta dæmi sýna áframhaldandi kúgun ríkra gagnvart þjóðum innfæddra. Elsti íbúi Beaver Creek, 88 ára gamall, fékk bóluefnið á sama tíma og Baker hjónin. Vander Meer segir það hljóta að varða fangelsisvist, annað væri óhugsandi.
Spilavítakeðjan Great Canadian Gaming sendi fréttastofu BBC yfirlýsingu þar sem segir að fyrirtækið hafi slitið öll tengsl við Baker á sunnudag. Stjórn fyrirtækisins líði ekki að starfsmenn þess gangi gegn gildum fyrirtækisins.