
Vilja gera Hrísey að „hæglætisbæ“
Hugmyndin kviknaði 2019
Það er staðarmiðillinn Akureyri.net sem greinir frá þessu. Fyrstu hugmyndir Hríseyjar um að ganga í samtökin kviknuðu vorið 2019. Þá stóðu Brothættar byggðir fyrir kynningarfundi þar sem fulltrúar Djúpavogs, Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri og Gréta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi, kynntu Cittaslow-hreyfinguna.
Vilja fá íbúa og fyrirtæki að borðinu
Ingólfur Sigfússon, formaður hverfisráðs Hríseyjar, segir í samtali við Akureyri.net að vinna þurfi með Akureyrarbæ til að verkefnið verði að veruleika. „Skoða þarf hvar Hrísey stendur varðandi skilyrði til þátttöku í samtökunum, hvað vantar upp á og hvaða leiðir eru færar til að uppfylla þau skilyrði svo aðild sé möguleg. Vinna þarf með Akureyrarbæ, fyrirtækjum í eyjunni og íbúum til að fá sem flesta að borðinu,“ segir Ingólfur í samtali við Akureyri.net.
Djúpivogur fékk inngöngu 2013
Cittaslow-hreyfingin kemur upphaflega frá Ítalíu en hefur verið innleidd við stjórnun víða um heim. Djúpivogur er eina sveitarfélagið á Íslandi sem hefur gert hana að sinni en þau fengu inngöngu árið 2013. Þátttaka í Cittslow hreyfingunni setur þær skyldur á herðar sveitarfélagsins að huga fyrst og síðast að lífsgæðum íbúanna, huga grannt að gæðum umhverfisins og hlúa að staðbundinni framleiðslu, sögu og atvinnuháttum.