Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Verðbólga yfir viðmið Seðlabanka fyrsta sinni frá 2013

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Verðbólga undanfarna tólf mánuði mælist 4,3% í nýjustu útreikningum Hagstofunnar. Svo mikil breyting hefur ekki mælst síðan í desember 2013. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5% en verðbólgan nú fer yfir varúðarmörk bankans.

Verði frávik meira en 1,5% í hvora átt ber bankanum að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta.

Í Peningamálum, riti Seðlabankans, sem komu út í síðasta mánuði var gert ráð fyrir því að verðbólga verði að meðaltali um 3,7 prósent fram á þetta ár en hjaðni svo hratt þegar áhrif af gengislækkun krónunnar fjara út.

Spáin í desember gerði ráð fyrir meiri verðbólgu en Seðlabankinn hafði spáð fyrir um í ágúst. 

Vísitala neysluverðs er 490 stig

Vísitala neysluverðs í janúar lækkar um 0,06% frá fyrri mánuði og er nú 490 stig. Sé húsnæðisverð ekki tekið inn í myndina er lækkunin 0,24%.

Á vef Landsbankans kemur fram að húsnæðisverð hafi hækkað um 7,7%  á tólf mánuðum en um 4,8% sé horft til breytingar á meðaltali vísitölunnar milli ára. Hækkun vísitölunnar nú er 4,7% án húsnæðisþáttarins. 

Á vef Hagstofunnar segir að víða standi vetrarútsölur yfir sem hefur áhrif til lækkunar vísitölunnar en föt og skór lækkuðu um 6,5% og húsgögn og heimilistæki um 3,3%.

Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,6% og húsnæði, hiti og rafmagn sömuleiðis. Bensín og olíur hækkuðu um 3,1%. Vísitala neysluverðs í janúar gildir til verðtryggingar í mars næstkomandi. 

Leiðrétt 9:55 Upphaflega sagði að verðbólga hefði ekki farið yfir viðmið síðan í ágúst 2013 en hið rétta er að það gerðist síðast í desember það ár.