Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tryggingafélag Veitna metur bótaskylduna

26.01.2021 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fulltrúar Veitna eiga fund í dag með forsvarsmönnum Háskóla Íslands, um tjónið sem varð þegar mörg þúsund lítrar af vatni flæddu inn í byggingar skólans í síðustu viku. Veitur segja að tryggingafélag fyrirtækisins verði að meta bótaskylduna.

Sextíu ára gömul kaldavatnsleiðsla við Suðurgötu gaf sig í síðustu viku með þeim afleiðingum að vatn flæddi um stóran hluta háskólasvæðisins og inn í byggingar háskólans. Ljóst er að stjórtjón varð í óhappinu. Veitur reka leiðsluna sem gaf sig, en fyrirtækið er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur.

Greiningarvinnu lokið

Málið var kynnt fyrir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á reglubundnum stjórnarfundi í gær. Fréttastofa hefur ekki náð í Brynhildi Davíðsdóttur, stjórnarformann Orkuveitunnar í morgun. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, sagði hins vegar í skriflegu svari til fréttastofu að greiningarvinnu á atvikunu sé lokið og að verið sé að vinna málið áfram með hagaðilum og tryggingafélagi.

Þegar Ólöf er spurð hvort Veitur telji að fyrirtækið sé bótaskylt í málinu segir hún að það sé tryggingafélagsins að meta bótaskyldu en ekki Veitna. VÍS er tryggingafélag Veitna. Ólöf segir að enn sé verið að fara yfir málið og að fundað verði með fulltrúum Háskóla Íslands í dag.