Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kolófært og lokað um helstu leiðir á Vestfjörðum

26.01.2021 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Helstu fjallvegir á Vestfjörðum eru lokaðir eða ófærir vegna veðurs. Óvissustig er í Súðavíkurhlíð og Flateyrarvegur um Hvilftarströnd er enn lokaður vegna snjóflóðahættu. Veðurspá er óskapleg og ekki líklegt að hægt verði að opna í bráð.

Þröskuldar hafa verið meira og minna lokaðir síðan fyrir helgi, Dynjandisheiði er lokuð og Steingrímsfjarðarheiði ófær vegna veðurs. Klettsháls er þá sömuleiðis ófær.

Blint í Önundarfirði

Vegagerðin hefur allan varann á hvað Flateyrarveg varðar, að sögn Guðmundar R. Björgvinssonar, yfirverkstjóra Vegagerðarinnar á Ísafirði.

„Við bíðum þangað til að veðrið gengur niður og hægt verður að sjá til. Það er  blint núna og austanátt sem gerir ástandið verra. Ef veður gengur niður og menn ná að sjá eitthvað til verður hægt að skoða það að opna. Snjórinn hefur reynst mjög laus í sér svo flóðin falla auðveldlega.”

Varðskipið Þór er í Önundarfirði og hefur að sögn Guðmundar hjálpað Flateyringum í dag við að fá mjólk og aðrar nauðsynjar. Vegurinn hefur verið lokaður síðan á laugardagsmorgun, að undanskilinni stundarkornsopnun á sunnudag. 

Dynjandisheiði er lokuð og hefur verið það síðan fyrir helgi. Guðmundur býst við að hægt verði að moka þar á fimmtudag. „Mér sýnist veðrið vera orðið gott þá og þá verður lagt í heiðina. Þegar dettur niður.”

Reyna aftur við Steingrím á morgun en dettur ekki niður á Þröskuldum fyrr en annað kvöld

Jón Sigmundsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, segir mjög blint á Steingrímsfjarðarheiði sem er merkt ófær.  „Við byrjuðum mokstur í morgun en snerum frá því að skyggnið var akkúrat ekkert. Það er enginn stórkostlegur snjór en það sést ekkert, það eru bara varasamar aðstæður þarna uppi.” Hann segist gera ráð fyrir því að reynt verði á mokstur þar í fyrramálið. 

Þröskuldum var lokað klukkan fjögur í gær. 

„Það var bara orðið þannig að hvorki mokstursmenn né vegfarendur sáu til. Var ekki hægt að tryggja að allir kæmust yfir.” Hann segir að af veðurkortunum að dæma sé ekki hægt að sjá að það muni lægja á Þröskuldum fyrr en annað kvöld. Hægt er að fara Innstrandaveg, inn Hrútafjörð, í stað Þröskulda.