Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Jöfnunarsæti þyrftu að vera fleiri

Mynd: RÚV / RÚV
Fyrirkomulag og úthlutun þingsæta miðað við gildandi kosningalög dugir ekki til að tryggja jöfnuð milli þingflokka. Jöfnunarsætin eru of fá, að mati Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors í stjórnmálafræði. Hann telur að breytingar á kosningalögum sem lagðar voru til í vetur séu til bóta í mörgu en þar sé ekki tekið á þessum vanda.

Á Alþingi sitja 63 þingmenn í sex kjördæmum. Í stjórnarskrá segir að kjördæmin skuli vera fæst sex en flest sjö. Mörkin sett í lögum en landskjörstjórn má ákveða mörk Reykjavíkurkjördæmanna tveggja. Kjördæmissæti í hverju kjördæmi eru minnst sex en Landskjörstjórn getur breytt fjölda þingsæta í kjördæmum ef kjósendur að baki hverju þingsæti eru helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru.

Þingsætum fjölgað í Suðvestur en fækkað í Norðvestur

Það viðmið hefur orðið til þess að þingsæti hafa í tvígang verið flutt  frá Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi. Í Suðvesturkjördæmi eru því  flestir þingmenn,13 þar af 2 jöfnunarsæti og að sama skapi fæstir í Norðvesturkjördæmi; átta og þar af eitt jöfnunarsæti. Í Reykjavikurkjördæmunum tveimur eru tvö jöfnunarsæti og eitt Norðaustur- og Suðurkjördæmum. Eftir að atkvæði hafa verið talin og kosningar gerðar upp er skoð hvort ástæða sé til að flytja þingsæti vegna misvægis atkvæða.

Þingsæti ekki flutt milli kjördæma nú

Eftir síðustu kosingar 2017 var gefin út tilkynning um að misvægi atkvæða væri óbreytt frá kosningunum þar á undan og fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi því óbreyttur. Þessi ákvæði kosninga laganna snúast um það að reyna að jafna vægi atkvæða eftir kjördæmum. Til að geta fengið jöfnunarsæti verða samtök sem bjóða fram að ná að minnsta kosti fimm prósenta fylgi á landsvísu. 

Telur brýnt að breyta kosningalögum til að jafna hlut flokka á þingi

Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði sagði í Speglinum á föstudaginn að brýnt væri að breyta kosningalögunum til að tryggja jöfnuð milli flokka eftir kosningar. Það hafi tekist í kosningum frá 1987 þó að ekki væri jöfnuður milli kjördæma. En í síðustu þrennum hafi ekki verið jöfnuður milli þingflokkanna og annað hvort Framsóknarflokkur eða Sjálfstæðisflokkur fengið einum manni meira en þeir ættu að fá ef jöfnuður hefði verið. Með fjölgun flokkanna dugi fjöldi jöfnunarsæta ekki til að jafna þennan mun milli flokkanna og það er Ólafi til furðu að þingið sjálft hafi ekki gert það strax 2013 þegar ljóst var að breytinga var þörf. Breytingarnar væri hægt að gera með ýmsum tæknilegum útfærslum. 

Fljótt á litið telur hann vænlegast að fjölga jöfnunarsætum, jafnvel mjög mikið. Það sé hægt að gera innan ramma stjórnarskrárinnar. Markmið hennar sé greinilega að tryggja skuli jöfnuð og það sé löggjafans að gera það. Breytingar sem gerðar voru á stjórnarskrá í kringum aldamótin hafi gert það að öll smáatriði í sambandi við kosningar séu ekki lengur bundin í henni. Margt hafi verið sett í kosningalögin sem þingið geti breytt án tvennra kosninga til að breyta stjórnarskrá.

Trúir því að þingið taki á þessu fyrir haustkosningar

Nýtt frumvarp um breytingar á kosingalögum er mjög til bóta til einföldunar í mörgu en þar er ekkert um þessa jöfnun segir Ólafur. Hann vill þó ekki trúa öðru en þingið taki á málinu fyrir kosningar. 

 

 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV