Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

343 börn bíða í allt að tvö ár eftir greiningu

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Allt að tveggja ára bið er eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og nú eru 343 börn á biðlista þar. Þeim hefur fjölgað undanfarin ár og þau bíða lengur en áður. Veita á 80 milljónum króna til að stytta biðlistana, einkum hjá yngstu börnunum. Markmiðið er að hann verði kominn niður í 200 börn á næsta ári og að þau þurfi ekki að bíða lengur en í tíu mánuði.

Að beiðni félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðissráðherra er verið er að vinna greiningu á því hvers vegna svona mörg börn þurfa að bíða svo lengi og er hennar að vænta um miðjan næsta mánuð.

Þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur þingmanns Miðflokksins um biðtíma hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Þar kemur fram að árið 2017 var algengur biðtími barna þar 10-17 mánuðir. Árið 2020 var hann 13-24 mánuðir og í svari ráðherra segir að áhersla sé lögð á að þau börn, sem búist sé við að séu með mesta skerðingu, njóti forgangs og sé um alvarlega röskun að ræða geti biðtíminn farið niður í örfáa mánuði.

Börnum, sem eru á biðlista eftir greiningu, fjölgaði um 18% á milli áranna 2017 og 2020; úr 290 börnum í 343 börn.  Þá fjölgaði sömuleiðis börnum sem fengu klíníska þjónustu á vegum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar úr 521 barni árið 2016 í 625 börn árið 2019.

Aftur á móti fækkaði tilvísunum talsvert í fyrra eftir að skerpt var á inntökuskilyrðum.

Árið 2019 voru 30% af öllum tilvísunum allra tilvísana sem bárust greiningarstöðinni vegna barna af erlendum uppruna og hefur þeim fjölgað talsvert undanfarin ár. Til dæmis voru 63 slíkar tilvísanir árið 2009, en tíu árum síðar, árið 2019, voru þær 106.

Í fyrra veitti ríkissjóður 637,7 milljónum til starfsemi greiningarstöðvarinnar, en tæpum 618 milljónum árið áður. Fjárveitingar hafa aukist undanfarin ár.