Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir verðir á vakt þegar maðurinn lést í Sundhöllinni

Mynd með færslu
 Mynd: Menningin - RÚV
Tveir laugarverðir voru að störfum í Sundhöll Reykjavíkur þegar karlmaður lést þar á fimmtudaginn. Annar var í sal Sundhallarinnar, þar sem innilaug er staðsett og hinn í turni laugarvarðar þar sem yfirsýn er yfir útilaug og aðgengi er að öryggismyndavélum sem sýna yfirlitsmynd yfir laugarsal Sundhallarinnar.

Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, yfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu, fannst maðurinn látinn á botni innilaugarinnar, í dýpri enda hennar. Sundlaugargestur varð hans var og gerði starfsmönnum laugarinnar viðvart. Maðurinn starfaði í geðþjónustu og var með geðfötluðum skjólstæðingi sínum í sundlauginni þegar hann lést. 

Bjarni Brynjólfsson upplýsingastjóri Reykjavíkuborgar segir að laugarverðirnir hafi fengið áfallahjálp. 

Bjarni segir að Íþrótta- og tómstundasvið hafi tekið málið fyrir og muni halda því áfram næstu daga. Farið verði yfir alla ferla og hvort unnið hafi verið samkvæmt þeim. Einnig hafi Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði verið gerð grein fyrir málinu.

Í tilkynningu frá Íþrótta- og tómstundasviði segir að í sundlaugum borgarinnar sé farið eftir reglugerð um hollustuhætti á sund-, og baðstöðum. Þar segir að lögreglan rannsaki málið og sé með upptökur úr öryggismyndavélum Sundhallarinnar.