
Mexíkóforseti með COVID-19
Obrador, sem er 67 ára gamall og hefur iðulega verið skilgreindur sem vinstri-popúlisti, sést sjaldan með grímu á ferðum sínum og fundum. Hann segist ætla að halda kyrru fyrir í forsetahöllinni næstu daga og sinna embættisskyldum sínum þaðan eins og hægt er. Innanríkisráðherrann muni hins vegar verða fulltrúi hans á daglegum upplýsingafundum út vikuna.
Sóttin geisar af miklum þunga
Hæsta viðbúnaðarstig hefur verið í gildi í Mexíkóborg síðan um miðjan desember vegna farsóttarinnar, sem geisar þar af miklum þunga. Um eða yfir 90 prósent allra sjúkrarúma í borginni eru upptekin og strangar sóttvarnaaðgerðir og víðtækar lokanir í gildi. 1.750.000 manns hafa greinst með COVID-19 í Mexíkó og dauðsföll af völdum sjúkdómsins nálgast 150.000.
Ekki eini þjóðarleiðtoginn með COVID
Obrador er langt í frá eini þjóðarleiðtoginn sem greinst hefur með kórónaveiruna heldur er nú kominn í hóp þeirra Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Borisar Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, Jairs Bolsonaros, Brasilíuforseta og Marcelos Rebelos de Sousa, nýendurkjörins forseta Portúgals, svo nokkrir séu nefndir.