Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mexíkóforseti með COVID-19

epa08963391 (FILE) - The President of Mexico, Andres Manuel Lopez Obrador, takes part in a tribute to the victims of the COVID-19 pandemic in the country, prior to delivering his second Government report, at the National Palace of Mexico City, Mexico, 01 September 2020 (reissued 25 January 2021). Lopez Obrador announced on 24 January that he has tested positive for Covid-19.  EPA-EFE/Jose Mendez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, tilkynnti í dag að hann hefði greinst með COVID-19. Einkennin væri þó væg enn sem komið er, skrifaði forsetinn, sem sagði frá veikindunum á samfélagsmiðlum. „Því miður þarf ég að greina ykkur frá því að ég er smitaður af COVID-19. Einkennin eru væg en læknismeðferð er þegar hafin,“ skrifaði forsetinn, „og eins og alltaf, þá er ég bjartsýnn.“

Obrador, sem er 67 ára gamall og hefur iðulega verið skilgreindur sem vinstri-popúlisti, sést sjaldan með grímu á ferðum sínum og fundum. Hann segist ætla að halda kyrru fyrir í forsetahöllinni næstu daga og sinna embættisskyldum sínum þaðan eins og hægt er. Innanríkisráðherrann muni hins vegar verða fulltrúi hans á daglegum upplýsingafundum út vikuna.

Sóttin geisar af miklum þunga

Hæsta viðbúnaðarstig hefur verið í gildi í Mexíkóborg síðan um miðjan desember vegna farsóttarinnar, sem geisar þar af miklum þunga. Um eða yfir 90 prósent allra sjúkrarúma í borginni eru upptekin og strangar sóttvarnaaðgerðir og víðtækar lokanir í gildi. 1.750.000 manns hafa greinst með COVID-19 í Mexíkó og dauðsföll af völdum sjúkdómsins nálgast 150.000. 

Ekki eini þjóðarleiðtoginn með COVID

Obrador er langt í frá eini þjóðarleiðtoginn sem greinst hefur með kórónaveiruna heldur er nú kominn í hóp þeirra Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Borisar Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, Jairs Bolsonaros, Brasilíuforseta og Marcelos Rebelos de Sousa, nýendurkjörins forseta Portúgals, svo nokkrir séu nefndir. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV