Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Katar í 8-liða úrslit HM eftir stórsigur Dana á Króötum

Mynd: EPA / EPA

Katar í 8-liða úrslit HM eftir stórsigur Dana á Króötum

25.01.2021 - 18:54
Danmörk burstaði Króatíu í leik liðanna í milliriðli á heimsmeistaramótinu í handbolta í Egyptalandi í kvöld. Króatía hefði farið áfram í 8-liða úrslit með sigri en sú varð svo sannarlega ekki raunin.

Fyrir leikinn gátu þrjú lið í milliriðlinum fylgt Dönum í 8-liða úrslitin. Það var ljóst að sigur myndi tryggja Króatíu sæti, jafntefli hefði þýtt að Argentína færi í 8-liða úrslit og Katar þurti að treysta á danskan sigur. Argentínu hefði nægt jafntefli gegn Katar fyrr í dag en eins marks sigur Katar í þeim leik opnaði riðiðilinn upp á gátt.

Króatar fóru vel af stað og skoruðu tvö fyrstu mörkin í leiknum. Danir voru án sinnar stærstu stjörnu, Mikkels Hansen, sem hefur glímt við ælupest, auk þess sem Lasse Svan var hvíldur.

Um miðbik fyrri hálfleiks fékk svo markvörðurinn Niklas Landin högg á hnéð þegar að samherji hans, Emil Jakobsen, lenti á honum og Landin lék ekki meira með Dönum í leiknum.

Sóknarleikur beggja liða gekk smurt fyrir sig í fyrri hálfleik og að honum loknum var staðan 17-15, Danmörku í vil.

Í seinni hálfleik er skemmst frá því að segja að leikur Króatíu hrundi frá A-Ö. Danir sýndu af hverju þeir eru ríkjandi heims- og Ólympíumeistarar með stórkostlegum varnar- og sóknarleik og áður en langt var liðið af seinni hálfleik var Danmörk með tíu marka forskot. Kevin Møller var með um 50% markvörslu hjá danska liðinu og flestar sóknaraðgerðir liðsins gengu upp.

Úrslitin voru löngu ráðin um miðjan hálfleikinn og það fór svo að Danmörk vann með tólf marka mun, 38-26. Þetta var síðast leikur Króatíu undir stjórn Lino Cervar sem sagði af sér í sjónvarpsviðtali eftir tapleikinn gegn Argentínu á laugardag. Úrslitin þýða að Katar fer áfram í 8-liða úrslitin ásamt Danmörku en Argentína og Króatía sitja eftir.

 

Tengdar fréttir

Handbolti

Háspenna í milliriðli II eftir sigur Katar á Argentínu