Danir voru þeir einu í riðlinum sem voru öruggir í 8-liða úrslit fyrir lokaumferðina í dag. Sigur Argentínu á Katar varð hins vegar til þess að allt verður undir fyrir Króatíu á móti Danmörku klukkan 19:30. Króatar geta nefnilega enn komist í 8-liða úrslit. Það geta Katar og Argentína þó líka.
Vinni Króatar Dani komast Króatar í 8-liða úrslit. Vinni Danir Króata kemst Katar í 8-liða úrslit. Geri Danir og Króatar jafntefli kemst Argentína hins vegar í 8-liða úrslitin. Það má því með sanni segja að það sé háspenna í milliriðli II fyrir leik Danmerkur og Króatíu.
Leikur Spánar og Ungverjalands í milliriðli I var sýndur á RÚV 2 áðan. Hann unnu Spánverjar örugglega 36-28 og mæta Noregi í 8-liða úrslitum á miðvikudag. Ungverjar mæta Frökkum. Um leið og leik Spánar og Ungverjalands lauk var hins vegar skipt yfir á lokamínúturnar í spennandi leik Argentínu og Katar. Sjá má síðustu augnablik leiksins úr Argentína-Katar í spilaranum hér fyrir ofan.