Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Flateyrarvegur áfram lokaður en Flateyringar rólegir

25.01.2021 - 12:18
Flateyri í Önundarfirði janúar 2020
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Flateyrarvegur um Hvilftarströnd hefur verið lokaður síðan á laugardagsmorgun. Hann var opnaður um stundarkorn í gær en lokað aftur þegar snjóflóð féll á hann. Eigandi Gunnukaffis segir að stefni í brauðbakstur í dag.

Þrjú hús efst í þorpinu voru rýmd um helgina, en rýmingunni var aflétt í gær. Ár er síðan snjóflóð féllu á Flateyri og kaffærðu hús eftir langvarandi snjókomu og vonskuveður. Guðrún Guðmundsdóttir, einn eigenda Gunnukaffis á Flateyri, segir að Flateyringar taki aðstæðum af yfirvegun. 

„Mér hefur fundist fólk bara dálítið rólegt yfir þessu. Það var ekki kominn eins mikill snjór og í fyrra, en gott öryggisatriði að það sé rýmt,“ segir hún. 

Flateyrarvegur er lokaður og samkvæmt Vegagerðinni á Ísafirði lítur ekki út fyrir að það breytist í dag. Honum var lokað á laugardagsmorgun, svo opnaður um stundarsakir í gær en lokað á ný þegar snjóflóð féll á hann. Síðast þegar vegurinn var ófær í lengri tíma var brugðið á það ráð að baka brauð á Gunnukaffi, svo að Flateyringar fengju nýtt brauð þrátt fyrir ófærð. Í það gæti stefnt í dag. 

„Heyrðu, það mögulega stefnir í að við þurfum að gera það í dag. Við eigum ekkert í vandræðum með að baka bara ef það vantar eitthvað. Bara bretta upp ermarnar og taka fram hveitidunkana.“